Skip to main content

Sjónum beint að hinsegin ungmennum í nýrri bók

10. maí 2017

Út er komin bókin Constructing sexualities and gendered bodies in school spaces: Nordic insights on queer and transgender students eftir Jón Ingvar Kjaran, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Í bókinni er fjallað um hvernig æskilegt er að stuðla að skilningi á kynhneigð og kyngervi í skólum á Norðurlöndum. Sjónum er beint að þeim þáttum orðræðunnar sem festa í sessi hetrósexíska hugmyndafræði innan veggja framhaldsskóla, jafnt innan stofnana og á milli einstaklinga. Bókin byggir að hluta á doktorsritgerð Jóns Ingvars sem hann varði við Háskóla Íslands árið 2014. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi rannsóknarinnar en ritgerðin var sú fyrsta hér á landi þar sem viðfangsefnið var hinsegin reynsla og veruleiki.

Jukka Lehtonen, fræðimaður við Háskólann í Helsinki, segir í gagnrýni sinni um bókina:
 
„Um er að ræða brautryðjendaverk á sviði hinsegin fræða sem lýsir ítarlegri greiningu á þjóðfræðilegri rannsókn þar sem varpað er ljósi á reynsluheim framhaldsskólanema sem eru trans, samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir. Bókin ætti ekki aðeins að gagnast kennurum og skólastjórnendum heldur öllum þeim sem hafa áhuga á kynhneigð, jafnrétti og menntun.“

Bókaforlagið Palgrave Macmillan gefur bókina út og er hún meðal annars fáanleg á Amazon.