Skip to main content
23. ágúst 2017

Sársauki og þjáning frá ýmsum sjónarhornum

Málþingið Svipbrigði sársaukans (The Many Faces of Pain) verður haldið við Háskóla Íslands dagana 1.-3. september. Þar kemur saman fólk úr gagnólíkum fræðigreinum, s.s. bókmenntafræði, heilbrigðisvísindum og gervigreindarfræðum, og ræðir um sársauka og þjáningu frá ýmsum sjónarhornum. Fimm lykilfyrirlesarar koma frá útlöndum: Ronald Schleifer (bókmenntafræði, læknahugvísindi), Madelaine Hron (bókmenntafræði, flóttafólk, innflytjendur), Anne Mulhall (kynjafræði, hinsegin fræði), Christopher Eccleston (sálfræði, verkjarannsóknir) og Nadia Berthouze (tilfinningatölvun, gervigreindarfræði, sársaukarannsóknir). Íslenskir fyrirlesarar eru 15 og meðal þeirra þrír rithöfundar, þau Auður Ava Ólafsdóttir, Naila Zahin Ana og Hallgrímur Helgason. Málþingið fer fram á ensku í stofu 301 í Árnagarði (1. september) og 105 á Háskólatorgi (2. og 3. september) og er öllum opið og ókeypis inn.

Að málþinginu standa Stofa í hugrænum fræðum, Háskóla Íslands, Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík og Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands í samvinnu við Reykjavík – Bókmenntaborg. Markmiðið með því er að leiða saman fræðimenn og rithöfunda sem hittast of sjaldan, fá þá til að bera saman bækur sínar og efla þannig skilning á fyrirbærum sem flestir þekkja af eigin raun. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum og forstöðumaður Stofu í hugrænum fræðum, segir tilganginn m.a. að opna umræðuna í samfélaginu um sársauka; sársauka sem sjálfsagðan fylgifisk tilvistarinnar og fyrirbæri sem hrín sérstaklega á ákveðnum minnihlutahópum, eins og hommum og lesbíum; innflytjendum og flóttamönnum.

Hér má nálgast dagskrá málþingsins.

Vefur Stofu um hugræn fræði.

Auður Ava Ólafsdóttir, Naila Zahin Ana og Hallgrímur Helgason.