Skip to main content
4. febrúar 2016

Samstarfssamningur við Kyoto-háskóla undirritaður

Háskóli Íslands og Kyoto-háskóli í Japan hafa  gert með sér samkomulag um nemendaskipti. Mikill fengur er að samningnum enda telst Kyoto-háskóli annar af tveimur bestu háskólum í Japan og meðal bestu háskóla í Asíu. Skólinn státar af því að starfsmenn og fyrrverandi nemendur hans hafa unnið fleiri Nóbelsverðlaun en nokkur annar háskóli í Asíu, eða tíu talsins.

Kyoto-háskóli býður upp á gott námsframboð á ensku í flestum fræðigreinum og er opinn nemendum í bæði grunn- og framhaldsnámi. Með samstarfinu opnast því spennandi tækifæri fyrir nemendur Háskóla Íslands til að taka hluta af námi sínu við framúrskarandi háskóla í Japan.

Skólinn er í norðurhluta samnefndrar borgar. Hún var höfuðborg Japans fram til ársins 1868 þegar Tókíó tók við. Gamla keisarahöllin og ýmsar menningarminjar eru vel varðveittar í Kyoto og er hún því vinsæl meðal ferðamanna.

Sendiboði Kyoto-háskóla, Toshiyuki Yokota, forstöðumaður skrifstofu alþjóðlegrar menntunar og nemendaskipta, kom með samninginn til landsins, undirritaðan af Juichi Yamagiwa, rektor Kyoto-háskóla. Jón Atli Benediktsson rektor skrifaði undir samninginn fyrir hönd Háskóla Íslands þann 2. febrúar 2016.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Toshiyuki Yokota, forstöðumaður skrifstofu alþjóðlegrar menntunar og nemendaskipta við Kyoto-háskóla, við undirritun samningsins.
Frá vinstri: Hafliði Sævarsson, verkefnisstjóri á Skrifstofu alþjóðasamskipta, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, og Toshiyuki Yokota frá Kyoto-háskóla.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Toshiyuki Yokota, forstöðumaður skrifstofu alþjóðlegrar menntunar og nemendaskipta við Kyoto-háskóla, við undirritun samningsins.
Frá vinstri: Hafliði Sævarsson, verkefnisstjóri á Skrifstofu alþjóðasamskipta, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, og Toshiyuki Yokota frá Kyoto-háskóla.