Skip to main content
11. janúar 2017

Samstarf við Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Háskóli Íslands og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hafa gert nýjan samstarfssamning sem miðar að því að efla samstarf stofnananna enn frekar í kennslu og rannsóknum. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, undirrituðu samninginn á dögunum.

Samkvæmt hinum nýja samningi, sem tekur við af eldri samningi frá árinu 2011, er markmiðið að samnýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu beggja aðila meðal annars með það fyrir augum að styrkja nýliðun fagfólks á sviði heyrnar- og talmeinafræða. Einnig er ætlunin með að stuðla að auknum rannsóknum  í þeim faggreinum sem tengjast greiningu, ráðgjöf og úrræðum tengdum heyrnar- og talmeinum.

Sérþekkingu á þessu sviði er bæði að finna á Félagsvísinda-, Heilbrigðisvísinda- og Hugvísindasviði Háskóla Íslands en skólinn býður m.a. upp á nám í talmeinafræði og táknmálsfræði og táknmálstúlkun. Heyrnar- og talmeinastöðin sér hins vegar um heyrnarmælingar, greiningu og meðferð á heyrnar- og talmeinum og hefur jafnframt yfirsýn yfir fjölda þeir sem eru heyrnarskertir og heyrnarlausir eða glíma við annars konar heyrnar- eða talmein.

Samkvæmt samningnum  geta einstakar deildir og kennarar við Háskólann leitað til starfsmanna Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar um að leiðbeina talmeinafræðinemendum í starfsnámi  og þá munu stofnanirnar vinna saman að því að skapa aðstöðu eftir föngum fyrir rannsóknatengt nám.  Enn fremur munu starfsmenn Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar geta sótt sér endurmenntun í námskeiðum innan deilda Háskóla Íslands. 

Þá er stefnt að því að bjóða völdum starfsmönnum Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar  að gegna akademískum gestastörfum innan Heilbrigðisvísindasviðs skólans og gert er ráð fyrir að sérfræðingar stöðvarinnar sjái um kennslu í tilteknum námskeiðum við námsbraut í talmeinafræði annað hvert ár.

Sérstök samstarfsnefnd Háskólans og Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, sem skipuð verður tveimur fulltrúum frá hvorri stofnun , mun sjá um framkvæmd samningsins.

Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, handsala samninginn í Háskóla Íslands.
Fulltrúar Háskóla Íslands og Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar að lokinni undirskrift.
Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, handsala samninginn í Háskóla Íslands.
Fulltrúar Háskóla Íslands og Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar að lokinni undirskrift.