Skip to main content
6. júní 2016

Samstarf milli Lífvísindaseturs og Lyfjafræðiseturs

""

Þann 2. júní 2016 undirrituðu formenn Lífvísindaseturs og Lyfjafræðiseturs Háskóla Íslands ásamt deildarforsetum Læknadeildar og Lyfjafræðideildar víðtækan samstarfssamning. Markmið samningsins er einkum að:

vinna saman að rannsóknum á sviði lífvísinda sem felur í sér samnýtingu á rannsóknartækjum, aðstöðu og sérþekkingu

skilgreina sérstaklega sameiginleg verkefni sem falla að rannsóknaráherslum vísindamanna þvert á setrin

auka samstarf um innkaupamál

sækja sameiginlega í rannsóknarsjóði, innlenda og erlenda, í þeim tilgangi að auka fjármagn til rannsókna sem undir samninginn fjalla

Lífvísindasetur Háskóla Íslands er rannsóknastofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands, formlega undir Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs, og er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á fræðasviðum lífvísinda. Aðild að Lífvísindasetri eiga rannsóknahópar við Háskóla Íslands og samstarfsstofnanir hans sem starfa á sviði lífvísinda og læknisfræði og stunda rannsóknir m.a. á sviði krabbameins, taugavísinda, lífefna- og lífeðlisfræði, frumuboðskipta, næringar, ónæmisfræði, stofnfrumurannsókna og genarannsókna. Hlutverk Lífvísindaseturs er m.a. að efla rannsóknir og kennslu í lífvísindum við Háskóla Íslands og tengdar stofnanir, auka samvinnu milli rannsóknahópa, skapa frjóan vettvang fyrir rannsóknir, auka samnýtingu tækja og aðstöðu og ná fram hagræðingu í rekstri.  

Lyfjafræðisetur Háskóla Íslands er samstarf rannsóknarhópa á sviði lyfjafræði og lyfjavísinda við Háskóla Íslands. Markmið Lyfjafræðiseturs er að efla rannsóknir og vísindalega þjálfun ungs fólks á sviði lyfjafræði og lyfjavísinda. Rannsóknir í lyfjafræði og lyfjavísindum eru þverfræðilegar í eðli sínu og spanna breitt svið náttúru- og lífvísinda, heilbrigðis- og félagsvísinda auk mæli- og lyfjagreiningartækni.

„Bæði setrin hafa unnið saman óformlega hin síðustu ár og hefur samstarfið verið farsælt og meðal annars leitt til birtingar margra vísindagreina. En okkur þótti mikilvægt að slíkt samstarf væri formlegt til að undirstrika mikilvægi samstarfsvettvangs þessara setra en einnig til að auka sýnileikan gagnvart vísindasamfélaginu. Þannig yrði til öflugari liðsheild og grundvöllur til frekara samstarfs,” segir Berglind Eva Benediktsdóttir, formaður Lyfjafræðiseturs, um samninginn.

Samninginn undirrituðu þau Eiríkur Steingrímsson, prófessor og stjórnarformaður Lífvísindaseturs, Berglind Eva Benediktsdóttir, lektor og stjórnarformaður Lyfjafræðiseturs, og deildarforsetar Læknadeildar og Lyfjafræðideildar, þeir Magnús Karl Magnússon og Hákon Hrafn Sigurðsson.

Samninginn undirrituðu þau Eiríkur Steingrímsson, prófessor og stjórnarformaður Lífvísindaseturs, Berglind Eva Benediktsdóttir, lektor og stjórnarformaður Lyfjafræðiseturs, og deildarforsetar Læknadeildar og Lyfjafræðideildar, þeir Magnús Karl Magnússon og Hákon Hrafn Sigurðsson.
Samninginn undirrituðu þau Eiríkur Steingrímsson, prófessor og stjórnarformaður Lífvísindaseturs, Berglind Eva Benediktsdóttir, lektor og stjórnarformaður Lyfjafræðiseturs, og deildarforsetar Læknadeildar og Lyfjafræðideildar, þeir Magnús Karl Magnússon og Hákon Hrafn Sigurðsson.