Skip to main content
7. júní 2017

Samningur endurnýjaður við Ningbo-háskóla í Kína

""

Sendinefnd á vegum Ningbo-háskóla í Kína heimsótti Háskóla Íslands þann 6. júní sl. til að endurnýja samning um nemendaskipti milli skólanna tveggja. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Shen Manhong, rektor Ningbo-háskóla, skrifuðu undir nýjan samstarfsamning í Aðalbyggingu Háskólans. Hann kveður m.a. á um áframhaldandi möguleika á nemendaskiptum milli skólanna. Fjöldi nemenda við Háskóla Íslands hefur á undanförnum árum hafa lært kínversku í skiptinámi við Ningbo-háskóla. Þá býður Ningbo-háskóli nemendum í kínversku á sérstakt sumarnámskeið sem haldið er við skólann á hverju sumri. Við undirritun samningsins var jafnframt rætt um möguleika á auknu samstarfi háskólanna á fleiri fræðasviðum.

Ningbo-háskóli er sérstakur samstarfsaðili Háskóla Íslands um rekstur Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa sem stofnuð var árið 2008. Allir kínverskukennarar stofnunarinnar við Háskóla Íslands nema einn hafa hingað til komið frá Ningbo-háskóla. 

Á meðan heimsókninni stóð færði rektor Ningbo-háskóla Kvennakór Háskóla Íslands veglegar kórmöppur en þess má geta að annar forstöðumanna Konfúsíusarstofnunarinnar, Qi Huimin, er félagi í kórnum. Afhendingin fór fram í Veröld – húsi Vigdísar, en Konfúsíusarstofnunin Norðurljós flutti þangað nýlega.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Shen Manhong, rektor Ningbo-háskóla.
 Hér eru fulltrúar beggja háskóla á fundi í háskólaráðsherberginu í kjölfar undirskriftar nýs samstarfssamnings.
Á myndinni frá vinstri til hægri eru: Shen Manhong, fektor Ningbo-háskóla, Margrét Bóasdóttir kórstjóri, Magnús Björnsson og Qi Huimin forstöðumenn Konfúsíusarstofnunarinnar.