Skip to main content
18. júní 2015

Robert Z. Aliber talaði um evrur og krónur

""

Á dögunum hélt bandaríski hagfræðingurinn Robert Z. Aliber  fyrirlestur í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í boði Hagfræðideildar Háskóla Íslands og Samtaka sparifjáreigenda.

Fyrirlesturinn var titlaður „Evra eða króna? Hvað hefur fjármálakreppan kennt okkur um gengisfyrirkomulag?“

Aliber er prófessor emeritus í alþjóðahagfræði og fjármálum við Háskólann í Chicago. Hann hefur skrifað fjölda bóka og ritgerða um alþjóðafjármál, erlenda fjárfestingu og starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækja. Síðustu árin hefur hann sýnt efnahagsmálum á Íslandi mikinn áhuga, en hann spáði fyrir hruni íslenska efnahagskerfisins vorið 2008.

Í fyrirlestri sínum var Aliber bjartsýnn á efnahagslíf Íslendinga en telur að Japan og Evrópusambandið séu í gengisstríði gegn Bandaríkjunum og öllum heiminum og það sé nokkuð sem Íslendingar þurfi að bregðast við. Ástæðan sé sú að Íslendingar séu útsettir fyrir mikilli gjaldeyrisáhættu því tekjur komi að miklu leyti frá Evrópu en útgjöld séu í Bandaríkjunum. Íslendingar séu því stöðugt að kaupa Bandaríkjadali. Hann ræddi jafnframt gjaldeyrishöftin og afnám þeirra og taldi það jákvætt skref en var þó á þeirri skoðun að afnámið ætti að gerast á lengri tíma.

Viðtal við Aliber birtist í Markaðnum miðvikudaginn 17. júní og má lesa það á þessum hlekk: Markaðurinn.

Robert Z. Aliber