Skip to main content
15. júlí 2015

Rektor Háskóla Sþ heimsækir Jafnréttisskóla Sþ

David Malone, rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSþ), heimsótti Háskóla Íslands 7. júlí sl. til að kynna sér starfsemi Jafnréttisskóla Sþ á Íslandi. Á fundi rektors með forsvarsmönnum og starfsmönnum skólans voru einnig rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, og verndari Jafnréttisskólans, frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, auk Max Bond, vararektors Háskóla Sþ, Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði sem situr í stjórn Jafnréttisskólans og Hólmfríðar Garðarsdóttur, forseta  Deildar erlendra tungumála við Hugvísindasvið HÍ. 

Þar gerði Jón Atli Benediktsson grein fyrir helstu markmiðum Háskóla Íslands og á hvaða hátt þau styðja við starfsemi Jafnréttisskólans, meðal annars með tilliti til rannsóknasamstarfs, alþjóðlegra tengsla og þverfaglegs starfsumhverfis. Frú Vigdís Finnbogadóttir fjallaði um mikilvægi jafnréttis í alþjóðastarfi. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskólans, hélt fyrirlestur um starf og áherslur skólans síðastliðið ár og Erla Hlín Hjálmarsdóttir verkefnastjóri fjallaði um nýja stefnumótun skólans í rannsóknum og fjáröflun og á hvaða hátt þau falla að stefnu Háskóla Sþ.

Rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna beindi sjónum að áherslum HSþ á rannsóknatengt nám og áhrif þess á stefnumótun stjórnvalda í þróunarlöndum og alþjóðastofnanna. Styrkleiki Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi, þ.e. Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans og Landgræðsluskólans, fælist meðal annars í tengslum þeirra við íslenskt háskólasamfélag. Malone lagði jafnframt áherslu á framlag Jafnréttisskólans til starfsemi HSþ og mikilvægi kynjajafnréttis í þróunarsamvinnu og samfélagsuppbyggingu.

Alls hafa 53 nemendur lokið námi frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Jafnréttisskólinn tók til starfa árið 2009 en fékk aðild að HSþ árið 2013. Markmið hans er að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrum átakasvæðum þjálfun á sérsviði sínu og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum. Hingað til hafa nemendur komið frá Afganistan, Malaví, Mósambík, Úganda og Palestínu. Jafnréttisskólinn heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands en starfsemi hans og áherslur eru þverfaglegar og að honum koma sérfræðingar af ólíkum fræðasviðum, bæði innlendir og erlendir. Hann er rekinn með fjárhagslegum stuðningi utanríkisráðuneytisins sem hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016 eru háskólar Sþ ein fjögurra alþjóðastofnana sem er lögð sérstök áhersla á að styðja í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu. Vefsíða skólans er http://gest.unu.edu/.

David Malone, Rector of UNU, visits the UNU-GEST programme in Iceland
David Malone, Rector of UNU, visits the UNU-GEST programme in Iceland