Skip to main content
23. febrúar 2017

Rektor á ráðstefnu háskólastjórnenda í Bandaríkjunum

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tekur í vikunni þátt í árlegri ráðstefnu Alþjóðasamtaka háskólastjórnenda (Associatation of International Adminstrators - AIEA)  sem haldin er í Washington D.C. í Bandaríkjunum. Um 950 háskólastjórnendur víðs vegar úr heiminum sækja ráðstefnuna að þessu sinni og er meginviðfangsefni hennar alþjóðavæðing undir yfirskriftinni „Internationalization through Difference: Transcending Boundaries“. 

Á ráðstefnunni er m.a. fjallað um alþjóðlegt samstarf háskóla og var sérstök málstofa tileinkuð rannsóknaháskólum sem eru samfélagslega ábyrgir (Socially relevant research universities: from rhetoric to reality). Hún var skipulögð á vegum Aurora-samstarfsnetsins en Háskóli Íslands er einn níu stofnenda þess. Rektor flutti erindi á þessari málstofu og ræddi m.a. rannsóknaumsvif og samfélagslega ábyrgð Háskóla Íslands og hvernig Aurora-netið getur nýst skólanum. Auk rektors flutt þau David Richardson, rektor East Anglia háskóla á Englandi, og Joy Johnson, aðstoðarrektor vísinda við Simon Fraser University í Kanada, erindi á málstofunni og voru umræður á henni afar líflegar. Fundarstjóri var Kees Kouweannar frá Vriije-háskóla í Amsterdam. 

Í tengslum við ráðstefnuna verður Jón Atli einnig hópstjóri á fundi forystufólks í háskólum beggja vegna Atlantshafsins (Transatlantic Leadership Forum) sem AIEA og European Association of International Education halda í sameiningu. Viðfangsefni fundarins eru m.a. alþjóðavæðing, hlutverk háskóla í samfélaginu, stjórn háskóla, samstarf, rannsóknir og birtingar. Rektor flytur enn fremur lokaávarp fundarins og lýsir sýn sinni í þessum málaflokkum. 

Aurora-samstarfsnetið hverfist um samstarf níu virtra evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að leggja í starfi sínu áherslu á hágæða rannsóknir, samfélagslega ábyrgð og að gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. Netið var formlega stofnað í Amsterdam haustið 2016. Samstarfsskólar Háskóla Íslands í netinu eru Vrije-háskóli í Amsterdam (Hollandi), Grenoble-Alpes háskóli (Frakklandi), Háskólinn í Aberdeen (Skotlandi), Háskólinn í Antwerpen (Belgíu), Háskólinn í Björgvin (Noregi), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), East Anglia háskóli (Englandi) og Gautaborgarháskóli (Svíþjóð).

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flytur ávarp á málstofu Aurora-samstarfsnetsins fyrr í vikunni.