Skip to main content

Rannsóknasetur HÍ í forgrunni á Arctic Circle Assembly

6. okt 2016

Stúdentar og starfsmenn Háskóla Íslands taka virkan þátt í norðurskautsráðstefnunni The Arctic Circle Assembly sem fram fer í Hörpu 7.-9. október nk. Sérstök áhersla verður á kynningu á fjölbreyttum rannsóknum vísindamanna við rannsóknasetur Háskóla Íslands víða um land.

Þetta er í fjórða sinn sem ráðstefnan er haldin í Hörpu en upphafsmaður hennar er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. The Arctic Circle Assembly er ein stærsta ráðstefna heims á sviði norðurskautsmála og hana sækja bæði erlendir og innlendir stjórnmálamenn, fulltrúar félagasamtaka, fyrirtækja, háskóla, hugveita, umhverfisamtaka og frumbyggja á norðurslóðum, svo dæmi séu nefnd. Öll eiga þau sameiginlegt að vilja stuðla að samtali og samstarfi um framtíð og þróun norðurskautsins. 

Fulltrúar Háskóla Íslands hafa frá upphafi tekið þátt í ráðstefnunni, m.a. með því að skipuleggja málstofur með samstarfsaðilum um afmörkuð málefni norðurskautsins og flytja erindi um rannsóknir sínar sem tengjast svæðinu, en óhætt er að segja að þær spanni fjölbreytt fræðasvið. Að þessu sinni taka fræðimenn Háskólans m.a. þátt í málstofum um háskólaborgir, bláan vöxt, velferð samfélaga, lagalega ábyrgð við olíu- og gasleit og loftslagsflóttamenn og ferðamennsku á norðurslóðum auk hugsmiðju um 12 leiðir til þess að bæta þetta svæði.

Stúdentar hafa einnig verið duglegir að sækja ráðstefnuna og í ár munu um 100 nemendur taka þátt í henni. Þeir eiga það sameiginlegt að sitja námskeið helguð norðurskautinu í Háskóla Íslands en að því kemur þverfræðilegur hópur kennara. Þá starfa nemendur einnig sem sjálfboðaliðar á ráðstefnunni.

Að þessu sinni skipa Rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni sérstakan sess á ráðstefnunni en fulltrúar þeirra munu kynna sínar rannsóknir á kynningarbási Háskólans á annarri hæð Hörpu á meðan á ráðstefnunni stendur. Rannsóknirnar snerta m.a. lífríki, ferðaþjónustu og menningu á norðurslóðum. 

Nánari upplýsingar um aðkomu nemenda og kennara Háskóla Íslands að The Arctic Circle Assembly má finna á Arctic Initiative, vefsíðu helgaðri fjölbreyttum rannsóknum skólans á sviði norðurslóða.

Heimasíða The Arctic Circle Assembly

Selir við jökul
Selir við jökul