Skip to main content
23. ágúst 2017

Rannsóknasamstarf við Beijing Normal University í kortunum

Sendinefnd frá Beijing Normal University (BNU) í Kína heimsótti Háskóla Íslands mánudaginn 14. ágúst til að ræða aukið samstarf milli skólanna. 

BNU hefur verið samstarfsskóli Háskóla Íslands um nemendaskipti frá árinu 2009 en hefur nú áhuga á að auka rannsóknasamstarf, sér í lagi á sviði fjarkönnunar (remote sensing) enda eru báðir skólarnir mjög öflugir á því sviði. Benda má á að á hinum virta lista Shanghai Ranking´s Global Ranking of Academic Subjects 2017, þar sem litið er á einstakar fræðigreinar innan háskóla, raðast BNU nr. 3 í heiminum í fjarkönnun en Háskóli Íslands er þar ekki langt undan í 10. sæti.  

Fulltrúar BNU í heimsókninni voru dr. Hao Fanghua, aðstoðarrektor vísinda, dr. Cheng Xiao, forseti College of Global Change and Earth System Science við BNU, og  Xie Yi, sérfræðingur á alþjóðaskrifstofu skólans. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands tók á móti sendinefndinni, en auk hans sátu Magnús Tumi Guðmundsson, deildarforseti Jarðvísindadeildar, og Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, fund með sendinefndinni. Fundarmenn sáu ýmsa fleti á auknu samstarfi, bæði á sviði rannsókna og með auknum nemendaskiptum, einkum doktorsnema. 

Við þetta má bæta að von er á hópi doktorsnema og nýdoktora frá BNU á hina árlegu ráðstefnu Arctic Circle í Reykjavík í október og mun dr. Cheng Xiao fylgja þeim. Stefnt er að því að halda þá áfram viðræðum um samstarf.
 

Fulltrúar Háskóla Íslands og Beijing Normal University funduðu um aukið rannsóknasamstarf á dögunum.