Skip to main content
14. október 2016

Rannsókn á líffræði kvenna - viltu taka þátt?

""

Leitað er eftir konum á aldrinum 18 - 40 ára til að taka þátt í rannsókn á líffræði kvenna - CYCLES á Íslandi.

Rannsóknin beinist að misháum styrk hormóna og hvernig hann tengist aukinni áhættu á ákveðnum sjúkdómum (svo sem brjóstakrabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum) og gæti haft áhrif á virkni ónæmiskerfisins og aðra þætti í almennri vellíðan.

Rannsakað verður hvort árstíðatengdar breytingar á dagsbirtu, mismunandi svefntími, mismunandi fæðutegundir og magn þeirra, líkamshreyfing og umfang hennar hafi áhrif á magn hormónanna. Rannsóknin byggist á því að mæla hormóna og lífmerki ónæmisvirkni í munnvatni, þvagi og blóðdropasýnum sem þátttakandinn tekur sjálf heima hjá sér. Við hyggjumst einnig safna upplýsingum um þá þætti (svo sem veru í sólskini, neyslu matar, hreyfivirkni og svefnmynstur) sem gætu haft áhrif á magn hormónanna.

Rannsóknin hefur fengið leyfi Vísindasiðanefndar og verið tilkynnt til Persónuverndar.

Þær sem geta boðið sig fram til þátttöku (fullorðnar konur eingöngu):

  • eru á aldrinum 18 - 40 ára.
  • eru af íslenskum eða evrópskum uppruna.
  • nota ekki núna (eða hafa notað undanfarna þrjá mánuði) hormónagetnaðarvarnir eða steralyf.
  • eru ekki núna (eða hafa verið undanfarna þrjá mánuði) ófrískar eða með barn á brjósti.
  • eru ekki núna á sérstöku mataræði með það fyrir augum að léttast eða þyngjast.
  • stunda ekki núna þjálfun sem atvinnufólk í íþróttum (reglubundin líkamsrækt er hið besta mál).

Verkefnin standa yfir á tímabilinu frá október 2016 til desember 2016.

Gögnum er að mestu safnað á meðan þú lifir þínu daglega lífi og á meðan einn heill tíðahringur stendur yfir. Þú þarft að svara spurningalistum um lífstíl og heilbrigði, daglega skapsmuni og reynslu þína af nánu samneyti og stuðningi. Einnig þarftu að láta mæla hæð þína, þyngd og líkamsfitu, taka lítil sýni af þvagi og munnvatni og blóðdropasýni úr fingri og bera „virknimæli“ sem mælir hreyfingu þína og veru í dagsbirtu.

Þeir sem hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar eða áhuga á þátttöku í ofangreindri rannsókn geta fengið frekari upplýsingar á virkum dögum milli kl 9-12 og 13-15 hjá Guðrúnu Kristínu Sigurgeirsdóttur, sími 543 8410 (gks@hi.is) eða á öðrum tímum og um helgar hjá prófessor Virginiu Vitzthum, sími 897 3759  (vitzthum@indiana.edu) en hún talar ensku. Allar fyrirspurnir eru bundnar þagnarskyldu.

Þóknun:
20.000 krónur fyrir einn heilan tíðahring (annað hvort að vetri eða sumri); 20.000 krónur fyrir annan heilan tíðahring (á öðrum árstíma en þann fyrri); 10.000 krónur fyrir að ljúka tveimur tíðahringjum (á mismunandi árstímum). Þær konur sem ljúka tveimur heilum tíðahringjum í rannsókninni fá því alls greiddar 50.000 krónur. Við greiðum einnig allan flutningskostnað. Við lok rannsóknar fá þátttakendur upplýsingar um niðurstöður mælinga.

Tekið skal fram að þeir sem hafa samband eru með því aðeins að lýsa yfir áhuga sínum á því að fá frekari upplýsingar, ekki að skuldbinda sig til þátttöku. Þeir sem taka þátt í rannsókninni geta hvenær sem er dregið sig út úr rannsókninni án þess að gefa sérstaka ástæðu fyrir ákvörðun sinni.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Dr. Geir Gunnlaugsson (geirgunnlaugsson@hi.is, sími 843 6237).

 

""
""