Skip to main content
22. júní 2017

Rannsaka skyldur foreldra í íslensku skólakerfi

Berglind Rós Magnúsdóttir, lektor og formaður námsbrautar í menntunarfræði og margbreytileika við Menntavísindasvið Háskóla Íslands tók nýverið við veglegum styrk úr Jafnréttissjóði Íslands fyrir verkefnið „Virkni, val og skyldur foreldra á íslenskum menntavettvangi: Samspil kyns og félagsstöðu.“

Verkefnið hefur það að markmiði að greina með markvissum hætti hvernig vinna mæðra og feðra birtist varðandi heimanám, tengsl við kennara og starfsfólk skóla, vinnu við tómstundir barna og vinnu við tilfinninga- og félagslega þætti sem upp koma hjá börnunum. Með menntavettvangi er átt við skólastarf á yngra og miðstigi grunnskóla, frístundir og tómstundir sem gjarnan taka við að skóladegi loknum. Þær lykilspurningar sem leitast verður við að svara eru: Með hvaða hætti spilar kyn og stétt mæðra og feðra saman þegar kemur að samskiptum foreldra í lægri stéttum við skóla barna sinna? Hverjar eru áskoranir hópanna og bjargráð? Hvaða áhrif hefur kyn, hjúskaparstaða og aðrir veigamiklir bakgrunnsþættir á borð við uppruna, tungumál, trúarbrögð, aldur, búsetu, fötlun og sérþarfir barns á valdatengsl þeirra innan menntavettvangsins? Doktorsnemar í verkefninu eru þær Auður Magndís Auðardóttir og Eva Harðardóttir.

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra afhenti styrkinn við athöfn í Hörpu en tæplega 100 milljónir króna voru til úthlutunar. Alls bárust 86 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna sem öll miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Að þessu sinni hlutu 26 verkefni styrki en þetta var í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Þess má geta að verkefni Berglindar hlaut næsthæsta styrkinn.

Um sjóðinn

Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður árið 2015 í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Markmiðið er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna. Sjóðurinn nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár og starfar samkvæmt reglum sem um hann gilda. Í samræmi við ályktun Alþingis og úthlutunarreglur sjóðsins leggur stjórn hans áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnahagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.

Nánar um úthlutunina á vef velferðarráðuneytisins.

Berglind Rós Magnúsdóttir