Skip to main content
24. maí 2016

Rætt um leiðir í háskólanám á grundvelli færni

""

Hópur norrænna sérfræðinga kom saman á málstofu í Norræna húsinu 18. maí til þess að ræða leiðir til að gera fólki kleift að sækja háskólanám á grundvelli raunfærnimats í stað prófgráða eingöngu eins og nú tíðkast. Að fundinum stóðu Háskóli Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Háskólinn í Reykjavík.

Evrópulönd leggja um þessar mundir áherslu á það í stefnumótun að opna leiðir fólks að námi á grundvelli þeirrar færni sem það býr yfir í stað þess að horfa aðeins til formlegra prófskírteina. Slíkt ferli er kallað raunfærnimat eða „validation of prior learning“. Hugmyndin að baki því er að fólk lærir víða og á ýmsa vegu, bæði á formlegan og óformlegan hátt, og að það sé eðlilegt að meta þekkingu og hæfni, sem fólk hefur aflað sér í starfi og félagsstörfum, við ákvarðanir um aðgang að formlegu námi og jafnvel til styttingar á því.

Annnars staðar á Norðurlöndum er unnið að mati á fyrra námi inni í háskólum en misjafnt er hversu langt það nær. Áhersla hefur verið á að opna leiðir inn í háskóla fyrir þá sem hafa ekki lokið tilskildu grunnnámi með því að meta reynslu og færni þeirra af öðrum vettvangi. Sums staðar er gengið lengra og þessi færni metin til eininga. Þannig má jafnvel stytta námstíma. 

Til þess að kanna hvað Íslendingar geta lært af öðrum norrænum ríkjum í þessum málaflokki var efnt til málstofu með þátttöku sérfræðinga frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð í Norræna húsinu. Jafnframt tóku aðilar frá stofnunum og ráðuneytum á Íslandi þátt í málstofunni, þar á meðal Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sem flutti ávarp í upphafi málþingsins. 

Mat á fyrra námi hér á landi fer víða fram en sú áskorun sem íslenskir háskólar standa frammi fyrir er hvernig megi móta aðferðafræði og samræma vinnubrögð með það að markmiði að auka aðgengi fjölbreyttari hóps inn í háskólana. Til að vinna að þessu hefur verið stofnaður starfshópur sem samanstendur af fulltrúum frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hópnum stýrir Ína Dögg Eyþórsdóttir, verkefnastjóri hjá Háskóla Íslands. 

Frá málþingi um raunfærnimat
Jón Atli Benediktsson
Frá málþingi um raunfærnimat
Jón Atli Benediktsson