Skip to main content

Ræða áhrif breytinga í hafinu á sjófuglastofna

22. Mar 2017

Hópur innlendra og erlendra fræðimanna kemur saman til fundar í Háskóla Íslands í dag  og á morgun til þess að ræða þær breytingar sem hafa átt sér stað í Norður-Atlantshafi og áhrif breytinganna á sjófuglastofna.

Miklar breytingar eiga sér nú stað í Norður-Atlantshafi sem hafa m.a. áhrif á fæðuvef sjávarins og þar með afkomu þeirra lífvera sem sækja sér fæðu í hafið, eins og sjófugla. Sterkar vísbendingar eru um að breytingarnar megi rekja til loftslagsbreytinga en þær hafa leitt til hækkandi sjávarhita sem aftur raskar þeim líffræðilegu ferlum sem eiga sér stað í sjónum. 

Sem dæmi má nefna að dýrasvifstegundir, sem hafa haldið sig í heitari sjó, hafa nú færst norðar og lagt undir sig svæði í Norðursjó sem áður tilheyrðu dýrasvifstegundum sem einkum lifa í kaldari sjó. Breytingarnar virðast hafa áhrif á afkomu sandsílis og þannig þær fuglategundir sem reiða sig á það, eins og lunda og ritu. Sama má segja um sjóinn við Ísland, Hjaltlandseyjar og Færeyjar en þar hefur sandsílastofninn látið undan og hafa vísindamenn m.a. tengt það miklum viðkomubresti í lundastofninum undanfarin ár. Þetta á einnig við um lundastofninn í Noregi og sjófuglategundir við austurströnd Bandaríkjanna. Allt eru þetta taldar vísbendingar um að breytingar, sem ná til alls Norður-Atlantshafs og í gegnum alla fæðukeðjuna, hafi þarna áhrif.

„Rannsóknir standa nú yfir beggja vegna Atlantsála á þessu miklu breytingum í lífkerfi Norður-Atlantshafsins og markmiðið með fundinum í Háskóla Íslands er m.a. að miðla rannsóknaniðurstöðum á milli rannsóknahópa og stuðla að frekara rannsóknasamstarfi í þessum efnum,“ segir Freydís Vigfúsdóttir, sérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindastofun Háskóla Íslands  og einn af aðstandendum vinnufundarins sem fram fer, eins og fyrr segir, dagana 22.-23. mars. 

Fundinn sækja, auk íslenskra fræðimanna innan og utan Háskólans, vísindamenn frá hinum norrænu ríkjunum, Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi. Sjálf ætlar Freydís að fjalla um áhrif nýlegra breytinga í sjónum við Ísland á sjófuglastofna við landið og hvaða þýðingu þessar breytingar hafa fyrir íslenskt hafsvæði. „Ísland hýsir stóran hluta sjófuglastofna Norður-Atlantshafs sem ekki er einungis til merkis um það hversu ríkt búsvæði hafið hér við land er heldur gefur einnig tækifæri til markvissra rannsókna. Sjófuglar eru vísitegund og geta nýst sem ávitar á heilbrigði hafsins en það þýðir að athuganir á þeim í samhengi við fæðuvef hafsins gefa tækifæri til að kanna stöðu lífvera á neðri þrepum fæðuvefsins. Samþætting upplýsinga og rannsókna á mismunandi fæðuþrepum sjávar ásamt gögnum um eðlisbreytingar hafsins eru lykillinn að því að auka skilning okkar á vistkerfi þess og hvernig við umgöngumst það sem villta náttúru og auðlind,“ segir hún.

Að fundinum standa Háskóli Íslands, Fuglavernd, alþjóðlegu fuglaverndunarsamtökin BirdLife International og bresku samtökin Royal Society for the Protection of Birds.

Freydís Vigfúsdóttir og lundi