Skip to main content
5. september 2016

Ráðstefna um heimskautaísinn á Mars í HÍ

""

Heimskautasvæðin á plánetunni Mars eru til umfjöllunar á ráðstefnu sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands dagana 5.-9. september. Auk Háskólans koma m.a. Veðurstofa Íslands og fjöldi erlendra háskóla að ráðstefnunni ásamt Marsskrifstofu Geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og fagfélögum í jarðeðlisfræði.

Það er eflaust ekki á allra vitorði að bæði á norður- og suðurpóli Mars má finna heimskautaís líkt og á jörðinni. „Á norðurskauti Mars er stór jökull, á við helming Grænlandsjökuls að stærð og ámóta þykkur þar sem hann er þykkastur eða 3 km,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur í jöklarannsóknum við Veðurstofu Íslands og einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar.

Norðurpóll Mars forn hafsbotn?

Þorsteinn bætir við að útlit jökulsins á norðurskautinu sé sérkennilegt því sveiplaga lægðir ganga út frá miðjunni auk þess sem inn í hann skerst mikill dalur, sem nefndur hefur verið Chasma Boreale. „Jökullinn liggur á eldri setlögum, sem á ensku kallast polar layered deposits. Er talið að þau setlög geymi sögu veðurfars á Mars milljónir ára aftur í tímann. Jökullinn og setlögin eru svo í mikilli lægð sem nær yfir mikinn hluta norðurhvels Mars. Þar er lítið landslag og hafa margir vísindamenn talið að um fornan hafsbotn sé þarna að ræða. Slíkt haf hefði þá verið á hnettinum mjög snemma í sögu hans, fyrir 3-4 milljörðum ára, og Mars þá allur hlýrri og lífvænlegri en nú er,“ segir Þorsteinn og bætir við að jökullinn á suðurskauti Mars sé minni og annars eðlis. „Suðurhvelið og suðurskautið er hluti af fornu hálendi sem ber enn merki um árekstra loftsteina snemma í sögu sólkerfisins fyrir nálægt 4 milljörðum ára.“

Jökulhettan á norðurskauti Mars er að mestu úr ís en á veturna, þegar myrkrið ríkir þar, kólnar yfirborðið það mikið að hluti af koltvíoxíði í andrúmsloftinu frýs og til verður eins metra þykkt lag af þurrís á jöklinum. Þurrísinn bráðnar svo þegar hlýnar að vori en því fylgja miklar umhleypingar í veðrinu á plánetunni. Á suðurpól Mars er málum háttað á annan veg en þar er stöðugt átta metra lag af þurrís á jöklinum. 

Lengi haft áhuga á nágrannahnöttunum

Ráðstefnan í Háskóla Íslands ber yfirskriftina International Conference on Mars Polar Science and Exploration og er þetta er í sjötta sinn sem slík ráðstefna er haldin. „Sú fyrsta var haldin í Texas árið 1998 og hafa þær verið haldnar á 2-5 ára fresti síðan: Á Íslandi 2000, í Kanada 2003, Sviss 2006, Alaska 2011 og svo aftur hér á Íslandi 2016,“ segir Þorsteinn. 

Hann segir hópinn sem sinni rannsóknum á þessum fjarlægu heimskautasvæðum telja um 100-200 manns. Meirihlutinn starfi í Bandaríkjunum en einnig allmargir í Evrópu og Kanada og einhverjir í Rússlandi, Japan og víðar. „Þessi hópur er svo „hlutmengi“ í öllu stærri hópi vísindafólks sem fæst við rannsóknir á Mars og könnun hnattarins og tekur einnig þátt í rannsóknum á öðrum hnöttum og tunglum í sólhverfinu. Þann hóp allan verður að telja í þúsundum,“ segir hann fremur.

Sem fyrr segir starfar Þorsteinn sem jöklafræðingur á Veðurstofunni og á námsárum sínum erlendis tók hann þátt í rannsóknarverkefnum á stórjöklum jarðarinnar, Grænlandsjökli og Suðurskautsjöklinum. „Mér bauðst þátttaka í fyrstu ráðstefnunni um heimskautasvæðin og jöklana á Mars 1998 og hef haldið sambandi við þennan hóp síðan. Ég hef lengi haft áhuga á nágrannahnetti okkar og jöklunum þar,“ segir Þorsteinn enn fremur.

Íslensk jarðfræðifyrirbæri eiga sér hliðstæður á Mars

Aðspurður segir Þorsteinn það ekki tilviljun að Ísland er vettvangur ráðstefnunnar. „Mörg jarðfræðifyrirbæri á Íslandi virðast eiga sér beinar hliðstæður á Mars og því hafa Marsfræðingar lengi sýnt landinu áhuga. Má þar til nefna ummerki um mikil vatnsflóð (hamfaraflóð), t.d. Kötluhlaup og hlaup úr Vatnajökli sem mynduðu Jökulsárgljúfur. Einnig eiga gervigígar sér hliðstæður á Mars og þar hafa sennilega orðið eldgos undir jöklum líkt og á Íslandi. Enn fremur eru giljadrög í fjallahlíðum hérlendis, mynduð af rennandi vatni, mjög svipuð áþekkum fyrirbærum á Mars en ekki er fullljóst enn hvort Marsfyrirbærin eru mynduð af vatni eða á annan hátt,“ segir Þorsteinn.

Við þetta má bæta að einn af aðalfyrirlesurum á ráðstefnunni er Þorvaldur Þórðarson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Þá býðst áhugafólki um rauðu plánetuna hér á landi að sækja eitt af erindunum á ráðstefnunni fimmtudaginn 8. september kl. 20 en þá mun dr. Shane Byrne, Marsfræðingur og lektor við Lunar and Planetary Laboratory við Arizona-háskóla, halda erindi um rannsóknir á Mars með sérstakri áherslu á könnun heimskautasvæða hnattarins. Fyrirlesturinn fer fram  í stofu HT-102 á Háskólatorgi. „Við vonumst til að sjá sem flesta áheyrendur!“ segir Þorsteinn.

Frá ráðstefnu um heimskautaísinn á Mars.
Frá ráðstefnu um heimskautaísinn á Mars.
Þorsteinn Þorsteinsson
Frá ráðstefnu um heimskautaísinn á Mars.
Frá ráðstefnu um heimskautaísinn á Mars.
Þorsteinn Þorsteinsson