Skip to main content
7. mars 2015

Ráðstefna og skóflustunga á alþjóðlegum degi kvenna

Alþjóðlegum degi kvenna, sunnudeginum 8. mars, verður fagnað með tveimur viðburðum í Háskóla Íslands. Annars vegar standa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Félag kvenna í atvinnulífinu fyrir málþingi, sem ber yfirskriftina Tungumál og atvinnulíf, og hins vegar verður fyrsta skóflustungan að nýrri byggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur tekin vestan Suðurgötu.

Málþingið verður í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 12.30 með léttum hádegisverði. Þórdís Lóa Þórhallsdóttur, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, setur svo málþingið kl. 13 og í framhaldinu flytja þau Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur,  Danielle Pamela Neben, stjórnarmaður hjá Landsbankanum,  Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, og Hildur Einarsdóttir, Director of Global Product Management hjá Össuri, erindi. Fundarstjóri er Sigríður Hrund Guðmundsdóttir, formaður Alþjóðanefndar Félags kvenna í atvinnulífinu.

Nánari upplýsingar um málþingið eru á viðburðavef Háskóla Íslands.

Í framhaldi af málþinginu, eða kl. 15, taka svo Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Byggingin rís á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu, næst gömlu Loftskeytastöðinni.

Í byggingunni verður bæði aðstaða til kennslu og rannsókna í þeim erlendu tungumálum, sem kennd eru við Háskóla Íslands, og þekkingarmiðstöð þar sem leikir og lærðir geta fræðst um erlend tungumál og menningu á lifandi og skapandi hátt. Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar mun starfa undir formerkjum UNESCO og er hún fyrsta tungumálamiðstöðin sinnar tegundar í heiminum sem hlýtur slíka viðurkenningu.

Svona mun bygging fyrir alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum líta út en hugmyndin kemur frá Arkitektastofunni Arkitektúr.is sem varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni um bygginguna.
Svona mun bygging fyrir alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum líta út en hugmyndin kemur frá Arkitektastofunni Arkitektúr.is sem varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni um bygginguna.