Skip to main content
19. desember 2016

Prófessor við Harvard er gestaprófessor í félagsfræði

""

Jason Beckfield, prófessor í félagsfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og einn fremsti fræðimaður heims á sínu sviði, hefur undirritað fimm ára samning um að gegna stöðu gestaprófessors við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Daði Már Kristófersson, sviðsforseti Félagsvísindasviðs, undirritaði samninginn fyrir hönd sviðsins ásamt þeim Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur, deildarforseta Félags- og mannvísindadeildar, og Helga Gunnlaugssyni, prófessor í félagsfræði. 

Jason hefur fjölbreytilegar áherslur í rannsóknum sínum, en hann beinir sjónum sínum einkum að stofnanabundnum ástæðum og afleiðingum ójöfnuðar. Hann hefur meðal annars skoðað áhrif alþjóðavæðingar á ójöfnuð sem og ójöfnuð í heilsu innan og á milli samfélaga. Jason hefur birt á fimmta tug tímaritsgreina í virtustu tímaritum félagsfræðinnar og skyldra greina, á annan tug bókakafla og er að leggja lokahönd á tvær bækur, sem munu báðar koma út hjá Oxford University Press innan tíðar. Í þeirri fyrri skoðar hann áhrif Evrópusambandsins á ójöfnuð og velferðarkerfið, en í þeirri síðari beinir hann sjónum að hvað orsakar heilsuójöfnuð innan og á milli samfélaga. Jason hefur verið í rannsóknasamstarfi við íslenska fræðimenn um langt skeið og birt greinar með Sigrúnu Ólafsdóttur prófessor í félagsfræði í virtum alþjóðlegum tímaritum. Sigrún og Jason hafa þekkst síðan 1999, en þau luku bæði doktorsnámi frá Indiana háskóla í Bandaríkjunum.

Í tilefni af undirskriftinni flutti Jason opinn fyrirlestur í Odda 101 þann 8. desember síðastliðinn sem nefndist „Embodiment by Design: An Institutional Approach to Social Inequalities in Health“. Þar fjallaði hannum tengsl ójöfnuðar og heilsu í alþjóðlegum samanburði  og þá sérstaklega um áhrif stofnanabundins ójöfnuðar á heilsuójöfnuð. Áður hafði Jason flutt fyrirlestur um rannsóknir sínar á Evrópusambandinu í Þjóðminjasafninu í maí 2014.

Félags- og mannvísindadeild fagnar þessum samningi við Jason Beckfield sem mun án efa styrkja íslenska félagsfræði og horfir björtum augum til nánara samstarfs við hann á næstu árum.

Nánari upplýsingar um Jason Beckfield eru á heimasíðu hans.

Samningur undirritaður og handsalaður
Guðbjörg, Sigrún, Jason, Daði Már og Helgi
Frá vinstri Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, Jason Beckfield, Daði Már Kristófersson og Helgi Gunnlaugsson.
Samningur undirritaður og handsalaður
Guðbjörg, Sigrún, Jason, Daði Már og Helgi
Frá vinstri Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, Jason Beckfield, Daði Már Kristófersson og Helgi Gunnlaugsson.