Skip to main content
24. febrúar 2015

Opnað fyrir umsóknir í Aðgangspróf fyrir háskólastig

Háskóli Íslands hefur opnað fyrir skráningu í Aðgangspróf fyrir háskólastig, eða A-próf, sem fara munu fram í mars og júní nk. Fjórar deildir skólans nýta prófið til að taka inn nemendur haustið 2015.
Aðgangsprófi fyrir háskólastig (A-prófi) er ætlað er að spá fyrir um námsárangur stúdenta við háskóla. Prófinu er skipt í fimm hluta þar sem reynir á getu í málnotkun, talnaleikni, rökhugsun og til skilnings á texta og fleiri þáttum sem reynir á í háskólanámi.

Lagadeild, Hjúkrunarfræðideild, Hagfræðideild og Læknadeild munu nota A-próf til að taka inn nemendur haustið 2015 en tvær þær síðastnefndu nota einnig frekari sértæk próf við inntöku nema.

Samkvæmt reglum háskólans er heimilt að halda A-próf tvisvar á ári og í ár er það haldið 21. mars og 12. júní. Inntökupróf í Læknadeild (læknisfræði og sjúkraþjálfun) verður þó einungis haldið í júní og verða væntanlegir nemendur deildarinnar að taka A-prófið sem hluta af því prófi. Inntökupróf í Hagfræðideild verður haldið í júní en deildin mun einnig halda próf 27. ágúst fyrir þá nemendur sem hafa verið samþykktir í annað nám í Háskóla Íslands en vilja skipta yfir í hagfræði.

Hagfræðideild hefur notað hluta A-prófsins frá árinu 2012 sem almennt próf á móti stærðfræðiprófi deildarinnar og í ár mun deildin nota A-prófið í heild ásamt stærðfræðiprófinu.

Hjúkrunarfræðideild nýtir A-próf í fyrsta sinn við inntöku nemenda á þessu ári.

Lagadeild hóf að nota A-prófið í fyrra með góðum árangri.

Læknadeild sem hefur notað eigið inntökupróf frá árinu 2003, mun fella A-prófið í fullri lengd inn í inntökupróf sitt og verður það lagt fyrir nemendur auk fjögurra annarra prófhluta.

Þau sem hyggjast þreyta A-próf vegna fyrirhugaðs náms við Hagfræðideild, Hjúkrunarfræðideild eða Lagadeild þurfa ekki að hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu prófi á þeim degi þegar prófið er þreytt. Deildirnar hafa eftir sem áður stúdentspróf sem lágmarkskröfu fyrir inntöku í haust. Þau sem hyggjast þreyta inntökupróf Læknadeildar þurfa aftur á móti að hafa lokið stúdentsprófi á prófdegi.

Skráningarfrestur í prófin er sem hér segir:
13. mars vegna A-prófs í mars
20. maí vegna inntökuprófs Læknadeildar í júní
5. júní vegna prófa fyrir Hjúkrunarfræðideild, Lagadeild og Hagfræðideild í júní

A-prófið verður í boði á fimm stöðum á landinu, þ.e. í Reykjavík, á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri og Ísafirði. Inntökupróf í Læknadeild verður eingöngu haldið í Reykjavík.

Skráning í A-prófið fer fram á heimasíðunni http://www.hi.is/a_prof en þar er jafnframt að finna allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag inntöku í deildir. Umsókn um nám í Læknadeild jafngildir skráningu í inntökupróf deildarinnar.

Frekari upplýsingar um notkun A-prófsins í einstökum deildum veita:
Skrifstofa Hjúkrunarfræðideildar s.  525 4216, 525 4961 og 525 4960 og hjukrun@hi.is
Skrifstofa Lagadeildar s.  525 4386, 525 4387 og 525 4376 og lagadeild@hi.is
Skrifstofa Hagfræðideildar s. 525 - 4500 og vidoghag@hi.is
Skrifstofa Læknadeildar s.  525 4883, 525 4881 og medicine@hi.is

Fjórar deildir munu nota A-prófið við inntökunemenda haustið 2015.
Fjórar deildir munu nota A-prófið við inntökunemenda haustið 2015.