Skip to main content
2. nóvember 2016

Óháð rannsóknarnefnd skipuð vegna plastbarkamálsins

""

Háskóli Íslands (HÍ) og Landspítali (LSH) hafa skipað nefnd óháðra utanaðkomandi sérfræðinga til að rannsaka aðkomu stofnananna og starfsmanna þeirra að plastbarkamálinu. Nefndarmenn eru þrír. Þeir starfa allir utan HÍ og LSH og hafa víðtæka reynslu og þekkingu af vísindastarfi á sviði læknisfræði, lögfræði og siðfræði, auk reynslu af störfum í sérstökum rannsóknarnefndum. Nefndarmennirnir eru:

Dr. Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn. Páll var áður dómari við Hæstarétt Íslands, formaður stjórnar Persónuverndar og prófessor við HÍ. Hann hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum á vettvangi hins opinbera. Páll var formaður rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008.

María Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í geðlækningum við réttargeðdeildina í Dikemark í Noregi. Auk geðlæknisstarfa er María með BA-gráðu í heimspeki. Hún hefur unnið með ýmis mál innan læknisfræðilegrar siðfræði og framkvæmt réttargeðmat í fjölmörgum málum.

Georg Bjarnason, krabbameinslæknir og vísindamaður við Sunnybrook-stofnunina í Toronto í Kanada. Georg er virtur vísindamaður á sínu sviði á alþjóðavettvangi og hefur mikla reynslu af krabbameinslækningum og vísindarannsóknum þeim tengdum.

Í ágúst sl. lauk tveimur viðamiklum sjálfstæðum rannsóknum á Plastbarkamálinu af hálfu Karolinsku-stofnunarinnar og Karolinska-sjúkrahússins í Stokkhólmi. Rannsóknirnar lutu að klínískum og vísindalegum ferlum þeirra stofnana sem áttu aðkomu að málinu í Svíþjóð. Háskóli Íslands og Landspítali studdu rannsóknir þessar frá upphafi og lögðu til þeirra eftir því sem óskað var. Niðurstöðurnar eru birtar í tveimur skýrslum sem lúta einkum að stofnununum tveimur.

Í kjölfar þeirra ákváðu Háskóli Íslands og Landspítali, á grundvelli stjórnunarheimilda sinna, að skipa sjálfstæða og óháða rannsóknarnefnd til að fara yfir málið. Rannsóknarnefndinni er ætlað að veita rökstutt álit á því hvort ákvarðanir íslenskra heilbrigðisstarfsmanna á LSH í tengslum við málið hafi verið í samræmi við lög, reglur og verkferla. Einnig er hlutverk nefndarinnar að rannsaka lagalegan og siðferðilegan grundvöll fyrir þátttöku íslenskra lækna í ritun og birtingu greinar um efnið í vísindatímaritinu Lancet og fyrir málþingi sem var haldið í HÍ sumarið 2012. 

Hlutverk nefndarinnar er að rýna niðurstöður sænsku rannsóknanna, ræða við skýrsluhöfunda og skoða sérstaklega aðkomu íslenskra stofnana og/eða starfsmanna þeirra að málinu. Nefndin hefur þegar hafið störf og er áætlað að niðurstöður hennar liggi fyrir á vormánuðum.

Aðalbygging Háskóla Íslands
Aðalbygging Háskóla Íslands