Skip to main content
24. nóvember 2015

Nýtt valnámskeið: Flóttafólk og hælisleitendur

Háskóli Íslands leggur sitt af mörkum við komu flóttafólks. Á vormisseri mun Félagsvísindasvið bjóða upp á valnámskeiðið: Flóttafólk og hælisleitendur (6 ECTS) sem opið er öllum nemendum í meistara- eða diplómanámi í Háskóla Íslands.

Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu og skilning fagfólks og háskólanema á málefnum flóttafólks og hælisleitenda frá sjónarhóli félagsráðgjafar, lögfræði og mannfræði. Í námskeiðinu verður m.a.fjallað um: Málefni  flóttafólks og hælisleitenda almennt í heiminum í dag en sérstök áhersla lögð á stöðu mála hérlendis.  Einnig er fjallað um helstu kenningar og megináherslur fræðimanna í málaflokknum, skilgreind helstu hugtök, fjallað um réttarstöðu flóttafólks skv. íslenskum rétti og alþjóðarétti sem og tengsl milli mannréttinda og verndar flóttamanna. Þá er lögð áhersla á ólíka stöðu karla, kvenna og barna, einstaka hópa flóttafólks, svo sem kvótaflóttafólk, hælisleitendur, börn án fylgdarmanns, ríkisfangslausa einstaklinga, þolendur mansals  o.fl. Enn fremur verður fjallað um áhrif landflótta á líf einstaklinga og fjölskyldna og þá fjölmörgu áhrifaþætti sem móta stöðu og reynslu  í nýju landi. Þrjár deildir standa að kennslu í námskeiðinu sem er því þverfræðilegt.

Enn fremur eru í boði tvær námsleiðir sem tengjast málaflokknum, meistara- og diplómanám í hnattrænum tengslum sem er opið þeim sem lokið hafa fyrstu háskólagráðu, og diplómanám í félagsráðgjöf með áherslu á fjölmenningu og margbreytileika, sem er opið þeim sem hafa lokið starfsréttindanámi í félagsráðgjöf.

Nemendur á Stúdentakjallaranum
Nemendur á Stúdentakjallaranum