Skip to main content
9. september 2016

Nýtt rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum stofnað

""

Nýtt rannsóknasetur, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa, hefur verið sett á laggirnar. Rannsóknir í þjóðfræði verða þar í öndvegi og sérstök áhersla á miðlun og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar. Rannsóknasetrið er staðsett á Hólmavík. 

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum er hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands en innan stofnunarinnar eru fyrir sjö rannsóknasetur víða um land, á Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Húsavík, Hornafirði og Suðurlandi. Viðfangsefni rannsókna sem setrin standa fyrir eru fjölbreytt, en á meðal þeirra eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og nú þjóðfræði.

Með samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands frá byrjun ársins 2016 var sett af stað vinna við að greina tækifæri og leiðir við að koma rannsóknasetrinu á fót. Áður hafði Strandagaldur ses staðið fyrir rekstri þekkingarsetursins Þjóðfræðistofu á Hólmavík frá árinu 2008 en starfsemi hennar hafði lagst af. Á grunni þessarar vinnu varð úr að ráðuneytið fól Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands að hefja starfsemi þessa nýja rannsóknaseturs í góðri samvinnu við heimamenn og að hluta til er byggt á þeim góða grunni sem áður hefur verið lagður með starfsemi Þjóðfræðistofu Strandagaldurs. 

Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu og hóf hann störf í byrjun mánaðarins. Jón hefur síðustu árin starfað sem menningarfulltrúi Vestfjarða. Aðsetur rannsóknasetursins er í Þróunarsetrinu á Hólmavík.

Hólmavík
Hólmavík