Skip to main content
18. september 2015

Nýtt ráðgjafaráð við Viðskiptafræðideild

Samþykkt hefur verið tillaga um ráðgjafaráð Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Tillagan fól í sér að komið yrði á fót ráðgjafaráði við deildina sem væri skipað fimm utanaðkomandi aðilum sem hefðu áhuga á að vera deildinni til stuðnings og gera það auðveldara að fá fram sjónarmið utan frá – úr atvinnulífi og samfélagi – sem mikilvægt er að hafa til hliðsjónar í öllu starfi og við þróun deildarinnar.

Deildin hefur skipað eftirfarandi einstaklinga í ráðgjafaráðið til næstu þriggja ára, frá 1. október, 2015:

1)      Vilborgu Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Mentor samstæðunnar.  Hún er með MS-próf frá deildinni í stjórnun og stefnumótun.
2)      Úlfar Steindórsson, forstjóra Toyota á Íslandi.  Hann er með cand.oecon próf frá deildinni.
3)      Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra Vínbúðarinnar.  Hún er með cand.oecon og MS-próf frá deildinni.
4)      Margréti Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Eignastýringar Arion banka. Hún er með cand.oecon próf frá deildinni.
5)      Jón Ólafur Halldórsson, forstjóra Olís. Hann er með MBA-próf frá deildinni og er að ljúka MS-prófi í viðskiptafræði.

Nánar um ráðgjafaráðið:

Megintilgangurinn með ráðgjafaráði deildarinnar er að efla tengsl deildarinnar út í samfélagið og skapa viðvarandi ramma fyrir samtal deildarinnar við fulltrúa sem koma utan frá.

Hlutverk ráðsins er að vera til ráðgjafar og stuðnings í starfsemi deildarinnar, ekki síst kennslutengdri starfsemi. Samtalið í ráðgjafaráðinu er hugsað sem gagnkvæmt.

Viðskiptafræðideild kallar eftir og hlustar á sjónarmið fulltrúa í ráðgjafaráðinu varðandi kennslu deildarinnar, t.d. inntak í kennslu og kennsluaðferðir. Viðfangsefni ráðsins geta líka varðað bætt tengsl atvinnulífsins og deildarinnar. Það er einnig mikilvægt að Viðskiptafræðideild miðli upplýsingum um hvað kennt er og hvaða stefnu deildin hefur í kennslutengdum málum til ráðsins og fái viðbrögð þess. Sama á við um rannsóknarstarf deildarinnar. Ráðgjafaráðið gæti einnig komið að stefnumótunarvinnu deildarinnar.

Ráðgjafaráðið sækir að lágmarki einn vinnufund á ári en auk þess er fulltrúum í ráðinu boðið að mæta á fyrirlestra og ráðstefnur sem deildin stendur fyrir. Seta í ráðgjafaráðinu er ólaunuð virðingarstaða.

Oddi
Oddi