Skip to main content
11. nóvember 2016

Nýtt Færnisetur í Háskóla Íslands

Nýtt Færnisetur við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands var opnað í gær, fimmtudaginn 10. nóvember en með því hefur aðstaða til færnikennslu á Heilbrigðisvísindasviði verið stórbætt. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, opnaði Færnisetrið formlega en við sama tilefni var nýjum sýndarsjúklingi gefið nafn.

Kennslurými til færnikennslu í Hjúkrunarfræðideild hefur tvöfaldast með tilkomu nýja Færnisetursins en gert er ráð fyrir því að nemendur úr flestum deildum Heilbrigðisvísindasviðs hljóti þar kennslu. Færnisetrið er um 300 m2 að stærð og útbúið fullkomnum tækjabúnaði, meðal annars tölvustýrðum sýndarsjúklingum, fjölda hlutherma auk margvíslegra möguleika til gagnvirkrar kennslu með nýjustu tækni. Færnisetrið er staðsett á 2. hæð og í kjallara Eirbergs, húsakynnum Hjúkrunarfræðideildar við Eiríksgötu.

Algjörlega stórkostlegt verkefni

Helga Jónsdóttir, forseti Hjúkrunarfræðideildar, setti viðburðinn og sagði frá aðdraganda verkefnisins. Í kjölfar endurbóta á húsnæði deildarinnar myndaðist svigrúm til þess að endurgera Færnisetrið sem var áður einungis í kjallara Eirbergs. Helga færði ýmsum aðilum þakkir fyrir vel unnin störf í tengslum við nýja Færnisetrið og þá einna helst Margréti Sigmundsdóttur, verkefnastjóra við Hjúkrunarfræðideild og leiðbeinanda í Færnisetrinu, Þorsteini Jónssyni, aðjunkt í bráða- og gjörgæsluhjúkrun við Hjúkrunarfræðideild, Ingólfi B. Aðalbjörnssyni, byggingastjóra Háskóla Íslands. og Unnari F. Bjarnasyni, deildarstjóra á framkvæmda- og tæknisviði, en þau fjögur áttu veg og vanda að stjórn þessa verkefnis og hönnun Færnisetursins.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, opnaði Færnisetrið formlega og óskaði deildinni til hamingju með „algjörlega stórkostlegt“ verkefni. Jón Atli greindi frá mikilvægi nútímalegra kennsluhátta og ekki síst hermikennslu. ,,Nútímatækni gerir okkur í síauknum mæli kleift að líkja eftir þeim veruleika sem tekur við nemendum að námi loknu. Mikilvæg tæki í þessu sambandi eru hermar sem líkja eftir veruleikanum og gera nemendum kleift að beita þekkingu og kunnáttu sinni og þjálfa hagnýta færni sína í öruggum aðstæðum og eins oft og þörf krefur með áður óþekktum hætti. Færnisetur Hjúkrunarfræðideildar, sem vígt verður hér í dag, er einmitt glæsilegt dæmi um slíkt tæki" sagði Jón Atli. 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, tók einnig til máls og sendi Hjúkrunarfræðideild og Háskólanum hamingjuóskir. 

Að lokum kynntu þau Margrét og Þorsteinn starfsemi og möguleika til náms og kennslu í Færnisetrinu. Markmiðið með starfsemi Færnisetursins er að nemendur í heilbrigðisvísindum fái kennslu og þjálfun í flestu því er snýr að meðferð sjúklinga. Í Færnisetrinu er kennt í öruggum aðstæðum og hægt að endurtaka viðfangsefni eins oft og þörf krefur. Þar er líkt eftir raunverulegum aðstæðum og nemendur undirbúnir eins vel kostur er fyrir störf á heilbrigðisstofnunum. Til að mynda er hægt að kenna og þjálfa viðbrögð við sjaldgæfum aðstæðum og aðstæðum þar sem um líf er að tefla og þannig efla öryggi sjúklinga.

Lítill sýndarsjúklingur hlaut nafn

Hjúkrunarfræðideild óskaði eftir aðstoð háskólasamfélagsins við að finna nafn á nýjan sýndarsjúkling sem líkir eftir sjúklingi á barnsaldri. Rúmlega tvö hundruð tillögur bárust og völdu starfsmenn Færnisetursins úr á tillögu sem þeim fannst hæfa sjúklingnum best. Litli sýndarsjúklingurinn hlaut nafnið Gutti.

Skoða myndir frá opnun Færnisetursins.

Skoða frétt um Færnisetrið í Morgunblaðinu.

Frá Færnisetri