Skip to main content
16. ágúst 2017

Nýr forseti Hjúkrunarfræðideildar

Herdís Sveinsdóttir tók við stöðu forseta Hjúkrunarfræðideildar þann 1. júlí sl. Hún tók við af Helgu Jónsdóttur sem gegnt hafði stöðunni undanfarin fjögur ár.

Herdís er með BS-gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands. Hún hlaut MS-gráðu í hjúkrunarfræði frá University of Michigan árið 1987 og doktorsgráðu frá Umeå Universitet árið 2000.

Herdís hóf störf við Háskóla Íslands sem stundakennari í hjúkrunarfræði árið 1982. Hún var ráðin í stöðu lektors við skólann árið 1987, hlaut framgang í stöðu dósents árið 1991 og prófessors árið 2006.

Herdís starfaði við klíníska hjúkrun á Landspítala á árum áður en hefur frá 2004 gengt stöðu forstöðumanns fræðasviðs skurðhjúkrunar á spítalanum.   

Herdís hefur sinnt margvíslegum nefndarstörfum innan háskólans og utan. Hún hefur m.a. verið formaður Jafnréttisnefndar HÍ, fulltrúi í nefnd um framgang akademískra starfsmanna við HÍ, fulltrúi í Vísindaráði HÍ og formaður fagráðs Heilbrigðisvísindasviðs, í Vísindanefnd Landspítala, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í stjórn Vinnueftirlits ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga og formaður stýrihóps evrópskra hjúkrunarrannsakenda (WENR).

Rannsóknir Herdísar hafa að mestu beinst að heilbrigði kvenna, líðan skurðsjúklinga og starfi og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.

Nýr varaforseti við Hjúkrunarfræðideild er Helga Gottfreðsdóttir, prófessor í ljósmóðurfræði.

Herdís Sveinsdóttir