Skip to main content
13. apríl 2016

Ný stefna HÍ: Öflugur háskóli - farsælt samfélag

Í nýrri stefnu Háskóla Íslands, sem kynnt var fyrir starfsmönnum í gær, er áhersla lögð á að skólinn haldi áfram sókn sinni á meðal bestu háskóla í heimi undir kjörorðinu „Háskóli í fremstu röð“.  

Stefnan nýja er fyrir tímabilið 2016-2021 og hefur hún yfirskriftina „Öflugur háskóli – farsælt samfélag“. Í stefnunni er lögð áhersla á framsækna sýn á nám og kennslu, uppbyggingu rannsóknaumhverfis og alþjóðlegs samstarfs og að starf skólans hafi víðtæk áhrif og takist á við áskoranir samtímans. Einnig er áhersla á mikilvægi þess að leggja rækt við þann mannauð sem býr í starfsfólki og stúdentum. Loks eru gildi Háskóla Íslands lögð fram þar sem akademísku frelsi er skipað í öndvegi sem grunni alls háskólastarfs sem stuðlar að gagnrýninni hugsun, skapandi þekkingarleit, víðsýni og framsækni. Jafnrétti er haft að leiðarljós í starfi skólans sem grundvöllur fjölbreytni og virðingar í háskólasamfélaginu. Fagmennska og metnaður á að einkenna störf starfsfólks og stúdenta sem forsenda þess trausts sem Háskólinn nýtur í samfélaginu.

Þetta er í þriðja sinn sem skólinn setur sér metnaðarfulla stefnu til fimm ára. Markmið nýrrar stefnu Háskóla Íslands er að gera góðan háskóla enn betri en skólinn er í fararbroddi íslenskra háskóla og virkur þátttakandi í alþjóðlegu vísinda- og fræðasamfélagi. Góður árangur skólans á síðustu árum hefur skipað honum í fremstu röð samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum mælingum og á dögunum var birt endurskoðuð staða skólans á lista Times Higher Education World University Rankings sem færir hann upp um nær 50 sæti. Háskóli Íslands er nú í 222. sæti og hefur aldrei verið ofar. 

Um allan heim er lögð síaukin áhersla á gæði háskólamenntunar og öflugt vísindastarf til að tryggja samkeppnishæfni þjóða, hagsæld og lífsgæði. Háskóli Íslands gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu þekkingarsamfélags á Íslandi sem afkastamesta vísindastofnun landsins, leiðandi í menntun fagfólks á fjölmörgum fræðasviðum og með virku samstarfi við atvinnu- og þjóðlíf. 

„Forsenda þess að Háskólinn geti sótt fram er traust fjármögnun. Trygg fjármögnun háskólakerfisins er lykilfjárfesting íslensks samfélags til framtíðar og því er mikilvægt að fyrirheit stjórnvalda um stuðning við Háskólann standist. Þeirri fjárfestingu í menntun og þekkingu er vel varið og hafa erlendar og innlendar úttektir ítrekað staðfest að Háskóli Íslands er skilvirk og afar vel rekin stofnun,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. 

Stefna Háskóla Íslands 2016-2021 var samþykkt á háskólaþingi þann 3. mars 2016 og í háskólaráði 17. mars 2016. Hún var hins vegar gefin út í gær og er afrakstur víðtæks samráðs sem staðið hefur yfir frá haustmánuðum 2015 og náði til alls háskólasamfélagsins og hagsmunaaðila víðs vegar í atvinnu- og þjóðlífi. Jafnframt var byggt á margvíslegum gögnum og niðurstöðum innri og ytri úttekta á skólanum. „Þannig tryggjum við að stefna Háskóla Íslands standist alþjóðleg gæðaviðmið,“ segir rektor.

HI21 Stefna Háskóla Íslands 2016-2021 (.pdf)

Lykiláherslur og mælikvarðar

Í nýrri stefnu Háskóla Íslands eru sett fram lykiláhersluatriði ásamt sérhæfðari markmiðum og aðgerðum til að uppfylla stefnuna. Skilgreindir eru sérstakir mælikvarðar til að meta hvernig skólanum tekst að fylgja stefnu sinni. Lykiláherslurnar felast í framsækni í námi og kennslu sem býr nemendur undir þátttöku í atvinnu- og þjóðlífi en einnig í sterkum rannsóknainnviðum sem styðja við þekkingarsköpun og alþjóðlegt samstarf. Þá er lykiláhersla á að Háskóli Íslands sé góður vinnustaður þar sem gæðamenning ríki og að starf skólans hafi víðtæki áhrif og takist á við áskoranir samtímans.

Mælikvarðarnir sjálfir lúta að eftirfarandi þáttum:

NÁM OG KENNSLA

  • Endurkomu- og brautskráningarhlutfall
  • Námsánægja
  • Árangur nemenda eftir útskrift
  • Fjöldi útskrifaðra doktorsnema

RANNSÓKNIR

  • Staða á alþjóðlegum matslistum
  • Fjöldi birtinga og tilvitnana
  • Alþjóðleg samstarfsnet
  • Sértekjur

VIRK ÞÁTTTAKA

  • Samstarf við atvinnulíf
  • Samstarf við samfélag
  • Fjöldi ungmenna sem sækja fræðslustarf Háskóla Íslands

MANNAUÐUR

  • Starfsánægja
  • Álag á starfsfólk
  • Kynbundinn launamunur
  • Einkunn í alþjóðlegu gæðamati

Ítarefni um lykiláherslur og mælikvarðar

Framsækin sýn á nám og kennslu sem býr nemendur undir þátttöku í atvinnu- og þjóðlífi

Háskóli Íslands gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu nútímalegs þekkingarsamfélags með því að búa nemendur undir þátttöku og störf á fjölmörgum sviðum samfélagsins og undir frekara nám. Háskólinn leggur áherslu á gæði náms, þróun kennsluhátta, samþættingu kennslu og rannsókna og hagnýt verkefni í samvinnu við samfélag og atvinnulíf.

Sterkir rannsóknainnviðir sem styðja við þekkingarsköpun og alþjóðlegt samstarf

Háskóli Íslands er afkastamesta vísindastofnun landsins og þar eru stundaðar rannsóknir á öllum fræðasviðum. Öflugt rannsókna- og nýsköpunarstarf skólans hefur skapað honum sterka stöðu í alþjóðlegu vísindasamfélagi. Stuðlað verður að áframhaldandi uppbyggingu með því að fjárfesta í traustum innviðum og stoðkerfi, styðja við alþjóðlegt samstarf og auka gæði og hagnýtingu rannsókna.

Starf Háskólans hafi víðtæk áhrif og takist á við áskoranir samtímans

Háskóli Íslands leggur áherslu á að þekkingarsköpun við skólann hafi sem víðtækust áhrif og að Háskólinn sé ábyrgur þátttakandi í samfélagi sem stuðlar að jafnrétti, fjölbreytni og sjálfbærni. Miklu varðar að rannsóknir og nám takist á við þær flóknu áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir og að Háskólinn sé virkur þátttakandi í íslensku samfélagi og menningarlífi.

Góður vinnustaður

Háskóli Íslands er gróskumikið þekkingarsamfélag þar sem fjölbreyttur hópur starfsfólks og stúdenta kemur saman til að skapa og miðla nýjum hugmyndum og lausnum. Háskólinn kappkostar að vera eftirsóttur og metnaðarfullur vinnustaður sem laðar til sín hæft starfsfólk og nemendur í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Lögð er áhersla á lifandi og fjölskylduvænt starfsumhverfi, jafnrétti og tækifæri til starfsþróunar.

Gæðamenning og skilvirk upplýsingatækni

Háskólinn tryggir að rannsóknir og prófgráður standist alþjóðleg viðmið og gæðakröfur sem er forsenda þess trausts sem skólinn nýtur innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Árangur skólans byggist á sameiginlegum gildum, skýrri stefnu, markvissri áætlanagerð, árangursmati á grundvelli traustra upplýsinga og stöðugum umbótum.

Anddyri Aðalbyggingar