Skip to main content
19. október 2016

Ný stefna Heilbrigðisvísindasviðs

Ný stefna Heilbrigðisvísindasviðs fyrir árin 2016 – 2021 var kynnt og samþykkt á haustþingi sviðsins sem fram fór í Hátíðasal HÍ þann 11. október sl. Ný jafnréttisáætlun og skýrsla um samskiptamál voru einnig lagðar fram og samþykktar.

Stefna HVS 2016 - 2021

Stefna Heilbrigðisvísindasviðs 2016–2021 og aðgerðaráætlun hafa verið samþykktar. Þar birtast áherslur sviðsins til næstu fimm ára í eftirfarandi fjórum málaflokkum: Nám og kennsla; Rannsóknir; Virk þátttaka í samfélagi og atvinnulífi; Mannauður. Stefna Heilbrigðisvísindasviðs var unnin í takt við Stefnu Háskóla Íslands 2016 – 2021 og hefur sömu markmið. Í stefnu Heilbrigðisvísindasviðs eru sett fram aðgerðir sem starfsfólki og nemendum þótti styðja best við markmið á Heilbrigðisvísindasviði.

Vinna við nýja stefnu Heilbrigðisvísindasviðs hófst á sviðsþingi fyrr á þessu ári. Þátttakendum á sviðsþinginu var skipt í hópa þar sem fjallað var um málaflokkana fjóra. Eftir þingið var skipaður starfshópur sem vann áfram með niðurstöður hópavinnunnar. Starfshópinn skipuðu Ása V. Þórisdóttir, rannsóknastjóri HVS, Björn Guðbjörnsson, prófessor við Læknadeild, Bryndís E. Birgisdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, Erna Sigurðardóttir, deildarstjóri Læknadeildar, Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, og Sæunn Gísladóttir, verkefnastjóri á HVS.

Í júní var opnuð gátt þar sem starfsfólki og nemendum gafst kostur á að koma með athugasemdir og hugmyndir varðandi málaflokkana fjóra. Starfshópurinn vann síðan úr athugasemdum sem bárust og leitaði jafnframt eftir áliti fleiri aðila á sviðinu. Önnur gátt var opnuð á nú haustmánuðum þar sem starfshópurinn lagði fram drög að stefnunni, þ.e. markmiðum með aðgerðaráætlun. Þarf gafst starfsfólki og nemendum kostur á að forgangsraða aðgerðunum. Stefnudrögin voru einnig borin undir stjórn sviðsins, ýmsar nefndir og aðra aðila. Niðurstöður þessarar vinnu hafa svo verið notaðar til grundvallar á nýrri stefnu og aðgerðaráætlun Heilbrigðisvísindasviðs fyrir árin 2016-2021.

Samskipti á HVS – Virðing, heilbrigði og heiðarleiki

skýrsla um samskipti á Heilbrigðisvísindasviði var kynnt og samþykkt á þinginu. Aðdragandi skýrslunnar er sá að stjórn Heilbrigðisvísindasviðs skipaði í starfshóp um samskiptamál á sviðinu haustið 2015. Það var í kjölfar tilmæla frá rektor til allra sviða eftir að niðurstöður starfsumhverfiskönnunar HÍ lágu fyrir. Í starfshópnum voru Hákon H. Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild og formaður, Ragnar P. Ólafsson, dósent við Sálfræðideild, Sigríður Zoéga, lektor við Hjúkrunarfræðideild, og Þórana E. Dietz, mannauðsstjóri HVS. Hildur Halldórsdóttir og Jónína H. Ólafsdóttir frá starfsmannasviði HÍ unnu með hópnum. Skýrslan er allt í senn úttekt á samskiptamálum á sviðinu, tillaga að verkferli í samskiptum og aðgerðaráætlun. Starfshópurinn stóð fyrir viðtölum við rýnihópa úr öllum deildum sviðsins og eru niðurstöður þeirrar vinnu grundvöllurinn að framkvæmdaáætluninni. Í lok skýrslunnar leggur starfshópurinn til ný gildi fyrir starfsfólk Heilbrigðisvísindasviðs: Virðing, heilbrigði og heiðarleiki.

Jafnréttisáætlun 2016 - 2018

jafnréttisáætlun Heilbrigðisvísindasviðs 2016-2018 var einnig kynnt og samþykkt á þinginu. Hún tekur mið af jafnréttisáætlun HÍ 2014-2017 og stefnu HÍ 2016-2021. Jafnréttisáætlunin fjallar um stöðu og kjör starfsfólks, starfsanda og starfsumhverfi og kynjaskiptingu nemenda á sviðinu. Jafnréttisáætlunin var unnin af jafnréttisnefnd Heilbrigðisvísindasviðs, en hana skipa Erna Magnúsdóttir, dósent við Læknadeild og formaður nefndarinnar, Daníel Þ. Ólason, prófessor við Sálfræðideild, Margrét Þorsteinsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild, Selma Jónsdóttir, nemi í læknisfræði, Þórana E. Dietz, starfsmaður nefndarinnar, og Þórhallur I. Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.