Skip to main content
22. apríl 2016

Ný ofurtölva hjá Reiknistofnun Háskóla Íslands

Reiknistofnun Háskóla Íslands tekur í dag formlega í notkun nýja ofurtölvu sem mun stórefla rannsóknir á fjölmörgum vísindasviðum. Ofurtölvan opnar möguleika til rannsókna sem byggjast á þungum tölvureikningum við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Reiknifræði (computational science) er ört vaxandi svið innan vísindarannsókna, stundum sett fram sem þriðja rannsóknaraðferðin auk tilrauna og kennilegra rannsókna. Ísland hefur verið eftirbátur nágrannalandanna á þessu sviði en nú er stigið stórt skref í þá átt að jafna stöðu íslenskra vísindamanna. Allir starfsmenn og nemendur við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, sem vinna í rannsóknum þar sem þungir tölvureikningar koma við sögu, munu geta hagnýtt sér nýja tölvubúnaðinn. 

Sem dæmi um hagnýta notkun ofurtölvunnar má nefna reikninga á afoxun koltvíoxíðs með rafefnafræði sem gæti leitt til þess að unnt verði að nýta það til að framleiða eldsneyti, reikninga á eiginleikum og ferlum í sólhlöðum til að finna betri efni til að hanna og þróa ódýrari og skilvirkari sólhlöður, reikninga á nýstárlegum rafeindakerfum og segulkerfum sem opna möguleika á að hanna nýjar gerðir íhluta (devices) og úrvinnslu á fjarkönnunarmyndum frá gervihnöttum sem varða fjölmarga hluti á jörðu niðri, þ.m.t. breytingar á jöklum, hafís og hegðun eldfjalla, t.d. í aðdraganda eldgosa. Hægt væri að nefna fjölmörg önnur og ólík verkefni þar sem ofurtölvan mun koma við sögu.

Kaupin á tölvubúnaðinum, sem framleiddur var af Lenovo í Kína, voru styrkt af Innviðasjóði Rannsóknasjóðs Íslands með mótframlagi frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Reiknistofnun. Með nýju ofurtölvunni er kominn vísir að ofurtölvuveri hérlendis (IHPC - Icelandic High Performance Computer) sem mun stórbæta innviði til rannsókna sem byggjast á þungum tölvureikningum við háskólana á Íslandi.  

Reiknistofnun Háskóla Íslands mun sjá um viðhald og rekstur nýju ofurtölvunnar. 

Sæþór L. Jónsson
Sæþór L. Jónsson