Skip to main content
28. janúar 2016

Ný fundaröð um samanburðarstjórnmál

Hegðun kynjanna í tölvuleikjaveröldinni er viðfangsefni fyrirlestrar sem Jóhanna K. Birnir, dósent í samanburðarstjórnmálafræði við Maryland-háskóla, flytur í Odda 101 föstudaginn 29. janúar kl. 12. Fyrirlesturinn markar upphaf nýrrar fyrirlestraraðar Stjórnmálafræðideildar og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands um ávinning og viðfangsefni samanburðarstjórnmála. 

Fyrirlestur Jóhönnu ber heitið „Menning, kyn og ofbeldi í leikjaveröld“. Í honum fjallar Jóhanna um hvað við getum lært um áhrif kyns og kynjaviðmiða á hegðun með því að skoða hvernig tölvuleikjanotendur - karla og konur - hegða sér á mismunandi hátt í leikjaveröld eftir því hvort þau leika konur eða karla. Rannsókn Jóhönnu byggist á gögnum úr tölvuleiknum EVE Online. 

Alls verður boðið upp á fimm opna hádegisfyrirlestra í fyrirlestraröðinni en þeir verða á hverjum föstudegi til 4. mars í Háskóla Íslands. Dagskrá fyrirlestraraðarinnar er sem hér segir:

29. janúar: Menning, kyn og ofbeldi í leikjaveröld, Jóhanna K. Birnir, dósent við Maryland-háskóla. 

5. febrúar: Atvinnuóöryggi og hagræn kosningahegðun í spegli samanburðarstjórnmála, Agnar Freyr Helgason, doktor í stjórnmálafræði og verkefnastjóri Þjóðmálastofnunar HÍ. 

12. febrúar: Samskipti smáríkja við volduga nágranna: Samanburður á stöðu Norðurlandanna, Eystrasaltslandanna og Skotlands, Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.

19. febrúar: Óbein áhrif efnahagsmála á kosningar og þátttöku í kosningum í Evrópu, Eva Heiða Önnudóttir, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild HÍ. 

26. febrúar: Hvar eru lögin samin? Samspil þings og stjórnar á Íslandi með samanburði við Norðurlönd, Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.

4. mars: Samspil þjóðernis og trúar í átökum, Jóhanna K. Birnir, dósent við Maryland-háskóla 

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir.

Samanburðarstjórnmál er ein af meginundirgreinum stjórnmálafræðinnar og snúast þau um að greina og bera saman stjórnmál ólíkra ríkja í þeim tilgangi að öðlast dýpri skilning á stjórnmálum en mögulegt væri með því að skoða hvert tilfelli fyrir sig.  Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands hyggst frá og með næsta hausti bjóða upp á MA-nám í fræðigreininni og munu nemendur kynnast lykilrannsóknum í samanburðarstjórnmálum og öðlast víðtæka þekkingu á stjórnmálastofnunum, stefnuáherslum og almenningsáliti í mismunandi ríkjum, auk fjölbreyttra rannsóknaraðferða samanburðarstjórnmála.

Úr tölvuleiknum EVE Online
Úr tölvuleiknum EVE Online