Skip to main content
13. febrúar 2017

Ný deildaskipting Menntavísindasviðs samþykkt

Háskólaráð Háskóla Íslands fjallaði á fundi sínum þann 2. febrúar 2017 um breytta deildaskipan við Menntavísindasvið, en áður hefur ráðið fjallað ítarlega um það málefni á nokkrum fundum. Tillaga að nýrri deildaskiptingu var samþykkt einróma á fundinum.

Fyrir fundinum lá endurskoðuð skýrsla nefndar um deildaskiptingu á Menntavísindasviði. Í skýrslunni er gerð tillaga um fjölgun deilda fræðasviðsins úr þremur í fjórar og um heiti hinna nýju deilda. Í tillögunni er gert ráð fyrir að núverandi Kennaradeild verði skipt í tvennt, annars vegar í Deild kennslu- og menntunarfræði, og hins vegar í Deild faggreinakennslu. Deild kennslu- og menntunarfræði leggur áherslu á menntun kennara yngri barna, allt frá leikskólaaldri að miðstigi grunnskólans auk menntastjórnunar en í Deild faggreinakennslu verður viðfangsefnið fyrst og fremst menntun faggreinakennara í grunn- og framhaldsskólum. Þá er lagt til að stofnuð verði ný Deild menntunar og margbreytileika sem muni spanna vítt svið, m.a. uppeldis- og menntunarfræði, foreldrafræðslu, lýðræði, kynjafræði og sjálfbærni í menntun og þroskaþjálfafræði.

Loks er gert ráð fyrir nýrri Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda sem hefur tómstunda- og félagsmálafræði, íþrótta- og heilsufræði, fæðuval og heimilisfræði, forvarnir og heilsueflingu að viðfangsefni. Auk þess verður diplómanám fyrir nemendur með þroskahömlun staðsett í deildinni.

Fyrirhugað er að breytingin taki gildi frá og með 1. júlí 2018.

Skýrsla nefndar um deildaskiptingu á Menntavísindasviði