Skip to main content

Ný bók um íslenska íþróttaundrið

8. maí 2017

Undanfarin misseri og ár hafa verið gósentíð fyrir íslenska íþróttaáhugamenn enda hafa landslið þjóðarinnar í ýmsum íþróttagreinum náð stórkostlegum árangri á alþjóðavettvangi og glatt íslensku þjóðina. Árangur landsliðanna hefur vakið athygli víða um heim og hefur einnig orðið vísindamönnum rannsóknarefni. Einn þeirra sem rýnt hefur í þennan góða árangur er Viðar Halldórsson, lektor í félagsfræði, sem nú hefur sent frá sér bókina „Sport in Iceland: How small nations achieve international success“. 

Í tilefni af útkomu bókarinnar mun Viðar kynna helstu niðurstöður rannsókna sinna á opnum fyrirlestri í Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn verður haldinn þriðjudaginn 9. maí kl. 16.30-17.45 í sal 101 í Odda. 

Viðar hefur í samvinnu við Þórólf Þórlindsson, prófessor emeritus, stundað rannsóknir á því hvernig árangur einstaklinga og hópa/liða mótast af hinu félagslega umhverfi og birt rannsóknir þess efnis í ýmsum fræðitímaritum. Hann hefur jafnframt sinnt ráðgjöf fyrir íslensk félagslið og landslið í ýmsum íþróttum. „Þegar karlalandsliðið okkar í knattspyrnu náði að komast í lokakeppni EM árið 2015 vakti það mikla athygli og kallaði á félagsfræðilega greiningu að mínu mati. Það að nánast öll landsliðin okkar í okkar vinsælustu hópíþróttum séu að ná árangri á sama tíma – á síðustu 10 árum -  er mjög sérstakt. Það lá því beint við að reyna að skoða árangur íslenskra landsliða með heildrænum hætti,“ segir Viðar aðspurður um upphaf rannsóknanna. 

Í bókinni segir Viðar frá rannsóknum sínum á öllum landsliðum Íslands sem hafa náð þeim árangri að komast á stórmót á síðustu árum, í knattspyrnu, handknattleik, körfuknattleik og hópfimleikum, en hann rýndi sérstaklega í hvað þau ættu sameiginlegt. „Ég held því fram að árangur þessara liða eigi sér rætur í samfélagsgerðinni sem mótar hvernig þau spila. Ég fór því eftir fordæmi bandaríska félagsfræðingsins Gary Alan Fine sem lagði til að félagsfræðingar leituðu að hinu almenna í mismunandi aðstæðum. Ég reyndi með öðrum orðum að greina hvað þessi lið eiga sameiginlegt og sýna fram á hvernig helstu einkenni þeirra framkallast í samspili samfélagsgerðarinnar á Íslandi, alþjóðlegra strauma og tækifæra þessi misserin,“ segir Viðar.

Aðspurður um niðurstöður rannsóknanna bendir Viðar á að landsliðin í þessum ólíku íþróttagreinum séu merkilega lík að mörgu leyti. „Öll þessi landslið byggja á sterkri liðsheild og góðri stemningu og nota jafnvel sömu orðræðuna til að skilgreina hvernig þau spila, eins og „að spila með hjartanu” og „íslenska geðveikin“. Smæð samfélagsins, sagan og hefðir móta þessi einkenni landsliðanna sem eru öðruvísi en einkenni margra þeirra landsliða sem við mætum í keppni. Styrkur liðanna liggur í þessari nálgun til viðbótar við aukna fagmennsku í þjálfun og íþróttastarfi á Íslandi á undanförnum árum,“ segir Viðar.

Viðar segir bókina skrifaða þannig að hún gagnist fleiri hópum en eingöngu fræðasamfélaginu. „Ég held að þeir sem hafi almennt áhuga á íþróttum og árangri þessara liða geti haft gagn og gaman af bókinni,“ bætir hann við.

Það er eitt að ná góðum árangri með landslið en allt annað að byggja ofan á hann eða jafnvel bara viðhalda honum. Hvað þarf til þess að við Íslendingar höldum stöðu okkar meðal bestu íþróttaþjóða í þessum greinum að mati Viðars? „Við þurfum fyrst og fremst að átta okkur á styrkleikum okkar. Hvað gerði það að verkum að við náðum þeim frábæra árangri sem náðst hefur á undanförnum árum? Þessa sérstöðu þurfum við að standa vörð um: leikgleðina, samheldnina, sjálfstraustið og baráttuna, sem eru ekki síður mikilvægir þættir, samhliða því að stuðla að aukinni fagmennsku í íþróttastarfinu,“ segir hann.

Fyrirlestur Viðars á þriðjudag er öllum opinn og aðgangur er ókeypis. Hann er hluti af fyrirlestraröðinni Samtal við Samfélagið: Fyrirlestraröð í félagsfræði sem er samstarfsverkefni Félagsfræðingafélags Íslands og námsbrautar í félagsfræði við Háskóla Íslands. 

Bók Viðars verður til sölu á staðnum en einnig í Bóksölu stúdenta.