Skip to main content
15. ágúst 2016

Ný bók á sviði fjármunaréttar

""

Nýverið kom út bókin Restatement of Nordic Contract Law á vegum Djøf-forlagsins í Kaupmannahöfn. Bókin er afrakstur nokkurra ára rannsóknar norræna fræðimanna á sviði fjármunaréttar. Markmið hennar var að kanna beitingu og túlkun dómstóla á reglum norræns fjármunaréttar, einkum á sviði kröfu- og samningaréttar.

Um langt skeið hefur verið leitast við á Norðurlöndum að hafa í gildi sambærilegar reglur á sviði fjármunaréttar. Má sem dæmi nefna að gildandi samningalög norrænu þjóðanna eru nær samhljóða. Þau voru sett fyrir um einni öld að undangengnu afar víðtæku samstarfi Norðurlandaþjóðanna, þar á meðal fræðimanna á sviði fjármunaréttar.

Bókin er á ensku og í henni er leitast við draga með skýrum hætti saman gildandi reglur og meginsjónarmið norræns kröfu- og samningaréttar, einkum með hliðsjón af niðurstöðum dómstóla. Sýnast dómstólar Norðurlandaþjóðanna hafa túlkað og skýrt gildandi efnisreglur á þessu sviði með afar áþekkum hætti þótt langur tími sé liðinn frá setningu sumra reglnanna.

Fræðimenn frá lagadeildum 13 háskóla á Norðurlöndum komu að útgáfu bókarinnar, með mismiklum hætti. Af hálfu Háskóla Íslands sat Ása Ólafsdóttir dósent í ritnefnd bókarinnar ásamt Ole Lando, Marie-Louise Holle og Peter Møgelvang-Hansen frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS), Torgny Håstad og Laila Zackariasson frá Háskólanum í Uppsala, Berte-Elen Konow frá Háskólanum í Bergen og Soli Nystén-Haarala frá Háskólanum í Lapplandi.

Aðrir sem komu að rannsókninni og voru jafnframt meðhöfundar einstakra kafla vegna íslensks réttar voru, auk Ásu Ólafsdóttur, þeir Eiríkur Jónsson og Eyvindur G. Gunnarsson, prófessorar við Háskóla Íslands.

Sjá Djøf forlag í Kaupmannahöfn.

Nýverið kom út bókin Restatement of Nordic Contract Law á vegum Djøf forlagsins í Kaupmannahöfn.