Skip to main content
25. nóvember 2016

Norræn ráðstefna um verkalýðssögu

""

Norræn ráðstefna um verkalýðssögu verður haldin við Háskóla Íslands dagana 28.-30. nóvember næstkomandi. Tilgangur ráðstefnunnar er að leiða saman fræðafólk og nemendur sem sérhæfa sig á ólíkum sviðum norrænnar verkalýðssögu, til að ræða og bera saman rannsóknaniðurstöður út frá norrænu og alþjóðlegu sjónarhorni. Meðal umfjöllunarefnis verða vinnudeilur, byltingar, heimilis- og umönnunarstörf, mansal, fólksflutningar, velferðarríkið og menning verkalýðsstétta.

Það eru Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Edda – öndvegissetur, sem skipuleggja ráðstefnuna í samstarfi við norrænar rannsóknarstofnanir og skjalasöfn. Ragnheiður Kristjánsdóttir, dósent og forstöðumaður Sagnfræðistofnunar, segir að saga vinnu og verkalýðs sé að ganga í endurnýjun lífdaga. „Með aukinni áherslu á að skoða þessa sögu í hnattrænu samhengi og frá sjónarhóli kyns til dæmis hefur rannsóknarsviðið víkkað út. Vissulega vorum við meðvituð um að það væri tímabært að kalla saman fólk sem tengist norrænni verkalýðssögu. Á næsta ári er til dæmis væntanlegt hjá Berghahn-útgáfunni greinasafn um norræna verkalýðssögu. En okkur óraði ekki fyrir þeim góðu viðbrögðum sem við fengum þegar við auglýstum eftir fyrirlestrum á ráðstefnuna,“ segir Ragnheiður.

Von er á hundrað fræðimönnum frá hinum norrænu ríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Ítalíu, Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Ragnheiður segir að ráðstefnan sé vítamínsprauta fyrir íslenskt fræðasamfélag sem auki til muna möguleika Íslendinga á alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi á þessu sviði.

Fyrirlestrar þeirra Dorothy Sue Cobble og Marcel van der Linden verða opnir almenningi.

Nánari upplýsingar á vef ráðstefnunnar.

Konur að vinna í fiski
Ragnheiður Kristjánsdóttir
Konur að vinna í fiski
Ragnheiður Kristjánsdóttir