Skip to main content
9. janúar 2017

Netla fagnar fimmtán ára afmæli

Netla fagnar fimmtán ára afmæli - á vefsíðu Háskóla Íslands

Netla Veftímarit um uppeldi og menntun er fimmtán ára í dag. Útgáfan hófst á afmælisdegi Ólafs J. Proppé, fyrrverandi rektors Kennaraháskóla Íslands, en hann varð sextugur 9. janúar 2002. Hugmyndina að þessari útgáfu, fyrsta rafræna tímaritinu um menntamál, átti Sólveig Jakobsdóttir, dósent við Menntavísindasvið. Raunar er ritið með fyrstu rafrænu tímaritunum sem gefin eru út hér á landi og hefur það notið mikilla vinsælda frá upphafi.

Tímaritið er bæði ætlað fræðimönnum á sviði uppeldis og menntunar og skólafólki almennt. Í samræmi við það eru birtar fræðilegar greinar á íslensku og ensku og líka frásagnir af þróunarstarfi, umræðugreinar, hugleiðingar, pistlar, viðtöl og ritfregnir og ritdómar um uppeldis- og menntamál. Ritstjórn hefur verið í höndum akademískra starfsmanna Menntavísindasviðs auk fulltrúa frá Þroskaþjálfafélagi Íslands og Kennarasambandi Íslands.

Alls hafa ríflega 400 ritrýndar og ritstýrðar greinar verið birtar í tímaritinu frá stofnun þess að meðtöldu efni í sérritum Netlu. Nú í ársbyrjun birtast fjórar nýjar greinar í ritinu, m.a. um kynjajafnrétti og kennaramenntun, Tyrkjaránið í skólabókunum, Facebook sem verkfæri í háskólanámi og um lýðræði í frjálsum leik barna.

Ritstjóri Netlu er Ásgrímur Angantýsson, dósent í íslensku við Menntavísindasvið.

Menntavísindasvið óskar Ólafi J. Proppé og Netlu til hamingju með daginn.

Vefur Netlu

"Vísindasmiðjan"
"Vísindasmiðjan"