Skip to main content
21. júlí 2016

Nemendur í fjölbreyttum rannsóknaverkefnum í sumar

""

Hópur nemenda við Háskóla Íslands vinnur að fjölbreyttum rannsókna- og þróunarverkefnum á vegum skólans og samstarfsaðila hans í sumar fyrir tilstilli Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Tæpur helmingur þeirra verkefna sem fengu styrk í ár tengist Háskóla Íslands.

Nýsköpunarsjóður hefur það hlutverk að gefa háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða háskólanema í grunn- og meistaranámi í sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni sem þykja líkleg til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja.  

Auglýst var eftir umsóknum snemma á þessu ári og bárust alls 254 umsóknir fyrir 377 háskólanema. Alls var sótt um rúmlega 250 milljónir króna en sjóðurinn hafði um 71 milljón króna til úthlutunar. Þær runnu til 67 verkefna en að þeim koma 108 nemendur skráðir til leiks í alls 305 mannmánuði.

Af þeim verkefnum sem hlutu styrk að þessu sinni eru 28 tengd Háskóla Íslands og samstarfsstofnunum og -fyrirtækjum. Verkefnin snerta ótal fræðasvið og meðal þess sem nemendur vinna að í sumar eru kennslu- og æfingabók í skapandi skrifum fyrir grunnskólanema, söfnun og greining á munnlegum og skriflegum heimildum um gerð og notkun hellanna á Ægissíðu til nýtingar í fræðsluefni, rannsókn á réttarstöðu, ráðgjöf og stuðningi við flóttafólk og hælisleitendur, hönnun málmlausra efnahvata fyrir vetnisbíla, íslensk-rússnesk veforðabók og handrit fyrir sýndarveruleika, byggt á íslenskum þjóðsögum.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna velur um 10-15 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Verðlaunin verða næst veitt snemma árs 2017. Þess má geta að nemendur við Háskóla Íslands hafa síðastliðin tvö ár hlotið verðlaunin. Árið 2015  hlaut Benedikt Atli Jónsson, þá BS-nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, verðlaunin fyrir verkefnið „Sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda“ en í ár hlaut verkefnið Fuglafár, sem miðar að því að rannsaka fuglafræðiþekkingu barna og þróa spil sem gerir þeim kleift að læra í gegnum leik, verðlaunin. Að því standa Birgitta Steingrímsdóttir, líffræðinemi við Háskóla Íslands, og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, vöruhönnunarnemi við Listaháskóla Íslands. 

""
""