Skip to main content
13. desember 2016

Náttúran í heimspekilegu ljósi

""

Út er komið greinasafnið Náttúran í ljósaskiptunum í ritstjórn Björns Þorsteinssonar. Bókin er afrakstur rannsóknarverkefnisins „Náttúran í ljósi fyrirbærafræði og austrænnar heimspeki“.

Bókin hefur að geyma níu greinar þar sem staða mannverunnar í náttúrunni er skoðuð með skírskotun til kenninga úr austrænni og vestrænni heimspeki og með tilliti til upplifunar í íslenskri náttúru. Drepið er á fjölmörgum álitamálum og úrlausnarefnum og tilraun gerð til að sýna fram á hvernig yfirvinna megi ýmsar kreddur sem notið hafa fullmikils fylgis meðal hárra jafnt sem lágra, en þó ekki síst þeirra sem valdið hafa.

Höfundar greina eru Björn Þorsteinsson, Gabriel Malenfant, Geir Sigurðsson, Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, Henry Alexander Henrysson, Jóhann Páll Árnason, Ólafur Páll Jónsson, Páll Skúlason og Sigríður Þorgeirsdóttir.

Í grein sinni „Maður og náttúra“ gerir Ólafur Páll Jónsson ólík viðhorf til náttúrunnar að umtalsefni og spyr meðal annars áleitinna spurninga um neyslusamfélag og mannlega iðju. Geir Sigurðsson beinir í grein sinni „Náttúra, menning og manneðli í vestrænni og kínverskri hugsun“ sjónum að innri náttúru og ólíkum viðhorfum til hennar sem finna má í austri og vestri. Sigríður Þorgeirsdóttir fjallar í greininni „Hvers vegna umhverfissiðfræði er róttæk grein hugvísinda“ um nýjar kenningar innan hugvísinda sem freista þess að svara brýnni þörf fyrir gagngera endurskoðun á sambandi mannveru og náttúru. Björn Þorsteinsson rær á svipuð mið í grein sinni „Flókinn: Samþætting manns og náttúru“ og skoðar sérstaklega hvernig heildarhugsun sem hefur sig yfir hefðbundna tvíhyggju hugveru og hlutveru er í senn að finna í fyrirbærafræði síðari hluta 20. aldar og í nútímaeðl­isfræði.

Í grein sinni „‘Eðli mónöðunnar er birtingin’“ leitar Henry Alexander Henrysson aftur á móti fanga á 17. öld, hjá Gottfried Wilhelm Leibniz, og sýnir hvernig hugsun hans er einnig af meiði heildarhyggju eða einhyggju. Í grein­inni „Lost in Nature: Levinas, Ethics, and Idolatry“ beinir Gabriel Malenfant sjónum að fransk-litháíska heimspekingn­um Emmanuel Levinas og tengir hugsun hans við náttúruna með einkar frumlegum hætti. Jóhann Páll Árnason fer aftur á móti í grein sinni „The Concept of Nature and its Cultural Mutations“ í saumana á náttúruhugtaki franska fyrirbæra­fræðingsins Maurice Merleau-Ponty og sýnir fram á hvernig það býður heim nýjum skilningi á náttúrunni sem stangast að mörgu leyti á við þann sem viðtekinn hefur verið í vestrænni menningu.

Tvær síðustu greinar bókarinnar fjalla öðru frem­ur um náttúruupplifun í íslensku samhengi. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir greinir frá rannsóknum sínum á viðbrögðum erlendra ferðamanna við náttúrufyrirbærum sem heita mega einkennandi fyrir Ísland og Páll Skúlason fjallar um þann andlega þátt sem býr í djúpri upplifun af náttúrunni. Páll lést á síðasta ári en grein hans í bókinni er ein af þeim fjölmörgu ritsmíðum sem honum auðnaðist að skilja eftir.

Rannsóknarverkefnið naut styrks úr Rannsóknasjóði (Rannís) á árunum 2007-2009.

Kápa bókarinnar Náttúran í ljósaskiptunum
Kápa bókarinnar Náttúran í ljósaskiptunum