Skip to main content
29. janúar 2017

Nanótæknin nýtt gegn krabbameini

""

„Þótt mikill árangur hafi náðst í meðferð krabbameina á undanförnum áratugum eru áskoranirnar enn talsverðar, bæði þegar kemur að því að greina sjúkdóminn, fylgjast með árangri meðferðar og meðhöndla illvíg krabbamein. Nanótækin býður upp á algerleg nýja möguleika á bættri greiningu og betri meðhöndlun. Það er nú þegar komin lyf á markað sem byggja á nanótækni og enn fleiri eru á leiðinni.“

Þetta segir Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, sem mun tala á málþingi um nanótækni og ný tækifæri í greiningu krabbameina og í krabbameinslækningum. Ráðstefnan er kennd við Nano World Cancer Day og fer hún fram í Hringsal Landspítalans við Hringbraut þann 2. febrúar næstkomandi. Ráðstefnan hefst kl. 10. „Við munum jafnframt nota tækifærið til að kynna þá möguleika sem felast í tilkomu jáeindaskannans nýja á Íslandi og hvaða áhrif hann hefur á greiningu krabbameina og krabbameinsmeðferð hér,“ segir Már.

Már segir að á fundinum verði kynnt hvernig hægt verði að nýta nanótækni til að bæta greiningu og meðhöndlun krabbameina. „Nanótæknin nýtist á mörgum sviðum en það eru sérstaklega miklar vonir bundnar við þessa tækni þegar kemur að krabbameinsmeðferð þar sem þörf er fyrir lyf sem verka eingöngu á krabbameinsæxli eða krabbameinsfrumur og ekki annars staðar í líkamanum.“

Már Másson er mjög afkastamikill vísindamaður. Þessa dagana fæst hann meðal annars við rannsóknir á svokölluðum kítósan-tengiefnum sem mynda nanóagnir og eru teknar upp í frumur. „Mögulegt er að ljósörva þessar nanóagnir til þess að auka virkni krabbameinslyfja í krabbameinsæxlum. Verið er að prófa þessa tækni í klínískum rannsóknum með góðum árangri en rannsóknir mínar beinast að því að skoða hvernig megi nýta nanótækni til að bæta árangurinn enn frekar.“ 

Á fundinum í Hringsalnum mun Berglind Eva Benediktsdóttir, lektor í lyfjagerðafræði við Háskóla Íslands, tala um nanólyf ásamt meðferð og greiningu krabbameins, og Pétur Hannesson, yfirlæknir röntgendeildar Landspítalans, og Garðar Mýrdal, forstöðumaður geislaeðlisfræðideildar spítalans, fjalla um jáeindaskannann nýja. 

Viðburðurinn er hluti af alþjóðlegum degi, Nano World Cancer Day 2017 - Nanomedicine: smart solutions to beat cancer. Kynningarfundir sem helgaðir eru þessu efni verða haldnir víða í Evrópu, m.a. í Austurríki, Belgíu, Frakklandi, Póllandi, Portúgal, Spáni, Sviss, Tyrklandi og Bretlandi.

Már Másson
Már Másson