Skip to main content
30. ágúst 2016

Nærri sjötíu hefja nám í íþrótta- og heilsufræði

""

Fyrsti hópur nýnema í íþrótta- og heilsufræði, sem hefur nám í Reykjavík, kom saman í gær við upphaf kennslu og kynnti sér einnig aðstöðu til verklegs náms í Laugardal. Um sjötíu nemendur eru skráðir í námið í haust og af deildum Menntavísindasviðs tekur Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild nú í fyrsta sinn á móti flestum nýnemum. 

Eins og kunnugt er ákvað háskólaráð Háskóla Íslands fyrr á þessu ári að flytja nám í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur, m.a. til að efla það og auka samstarf við aðrar deildir háskólans, íþróttahreyfinguna, frjáls félagasamtök og ýmsar stofnanir sem tengjast störfum íþróttafræðinga. Nám á öðru og þriðja ári verður þó áfram á Laugarvatni en námið flyst alfarið þaðan 2018. Þess skal þó getið að Háskóli Íslands stefnir áfram að því að vera með starfsemi á Laugarvatni en viljayfirlýsing við stjórnvöld og Bláskógarbyggð þar að lútandi var undirrituð í vor.

Bóklegi hluti íþrótta- og heilsufræðinámsins í Reykjavík fer fram í byggingum Menntavísindasviðs við Stakkahlíð en verklegar æfingar og vettvangsnám mun fara fram í ýmsum íþróttamannvirkjum í Laugardal og í World Class Laugum. Nýnemahópurinn hittist í Laugardalnum í gær og kynnti sér aðstöðuna en óhætt er að segja að hún sé fyrsta flokks. 

Hátt í 400 nýnemar hefja grunnnám við Menntavísindasvið nú í haust og í fyrsta sinn eru flestir nýnemar í Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, eða tæplega 180. Ríflega 130 eru skráðir í Kennaradeild og 60 í Uppeldis- og menntunarfræðideild. 

Nýnemar í íþrótta- og heilsufræði
Nýnemar í íþrótta- og heilsufræði