Skip to main content

Nærri 2.100 kandídatar brautskráðir frá Háskóla Íslands

23. jún 2017

Hátt í 2.100 kandídatar verða brautskráðir úr grunn- og framhaldsnámi frá Háskóla Íslands á morgun, laugardaginn 24. júní. Líkt og undanfarin ár verða tvær brautskráningarathafnir í Laugardalshöll. 

Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hefst kl. 10.30, taka kandídatar í framhaldsnámi við útskriftarskírteinum sínum en alls verða 809 kandídatar brautskráðir. Athöfnina sækja þeir sem eru að ljúka framhaldsnámi til prófgráðu, þ.e. meistaranámi og kandídatsnámi. 

Meðal brautskráðra verða fyrstu nemendurnir sem útskrifast með MA-próf í fjölmiðla- og boðskiptafræði frá Stjórnmálafræðideild en námið er samstarfsverkefni Félags- og mannvísindadeildar og Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands og hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Þá brautskrást einnig fyrstu nemendurnir með MA-próf í aðferðafræði frá Félags- og mannvísindadeild og úr þverfræðilegu framhaldsnámi hjá Hagfræðideild og Viðskiptafræðideild með MFin-gráðu í fjármálum.

Á seinni athöfninni, sem hefst kl. 14, fer fram brautskráning kandídata sem eru að ljúka grunnnámi, þ.e. BA-, B.Ed.- og BS-námi. Alls ljúka 1.278 kandídatar námi á grunnstigi að þessu sinni og taka við 1285 prófskírteinum. Þeirra á meðal er fyrsti kandídatinn sem lýkur BS-prófi í hagnýttri stærðfræði frá Raunvísindadeild skólans.

Prófskírteini verða afhent í röð eftir fræðasviðum: Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Á Félagsvísindasviði verða samtals brautskráðir 634, 510 á Heilbrigðisvísindasviði, 273 á Hugvísindasviði, 335 á Menntavísindasviði og 335 á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Samtals útskrifast því 2087 kandídatar frá Háskóla Íslands með 2094 prófskírteini.

455 kandídatar brautskráðust frá Háskóla Íslands í febrúar síðastliðnum og því nemur heildarfjöldi brautskráðra á árinu 2.542.

Frá brautskráningu í júní 2016