Skip to main content

Mismuna knattspyrnufélög konum og körlum?

8. jún 2017

Margrét Sif Magnúsdóttir, BS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Í lokaverkefni sínu, sem ber heitið „Hver er munurinn á rekstri og umgjörð karla og kvenna í knattspyrnu á Íslandi“, rannsakaði Margrét Sif Magnúsdóttir hvort kynjunum væri mismunað þegar kemur að rekstri og umgjörð innan knattspyrnufélaganna á Íslandi. Undirspurningarnar sem unnið var út frá voru tvær:  „Mismuna knattspyrnufélög konum og körlum?” og „Er fjárframlag félaganna í takt við jafnréttisstefnur þeirra?”

Margrét svaraði nokkrum spurningum okkar um verkefnið.

Um hvað fjallar rannsóknin?

Rannsóknin fjallar um mismun á rekstri og umgjörð karla og kvenna í knattspyrnu á Íslandi með tilliti til jafnréttisstefnu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort mismunun ætti sér stað á milli kynjanna í knattspyrnu og ef svo myndi reynast hver munurinn væri.

Hvaðan kom hugmyndin að rannsókninni?

Hugmyndin að rannsókninni kom út frá áhuga mínum á knattspyrnu, sjálf hef ég spilað knattspyrnu í mörg ár og hef ég upplifað sjálf mikinn halla á konur miðað við karla í umgjörð og rekstri. Ég hafði alltaf áhuga á að skrifa um knattspyrnu og einnig hef ég fylgst vel með umræðu um jafnrétti í landinu og þótti mér því áhugavert að blanda þessum þáttum saman.

Hverjar eru niðurstöður rannsóknarinnar?

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mismunun á sér sérstaklega stað í rekstri milli kynjanna. Hins vegar er umgjörðin mjög svipuð hjá kynjunum. Þá kom á óvart hversu fáir þekktu jafnréttisstefnu KSÍ og félaganna sem þeir spila fyrir en öll félög eiga að fara eftir jafnréttisstefnu KSÍ. Þátttakendur í rannsókninni voru sammála um að karlar fái meiri og betri umfjöllun heldur en konur og að umgjörð í kringum leiki hjá körlunum sé betri. Einnig kom vel í ljós að meiri peningar eru í spilunum hjá körlunum heldur en hjá konunum því mikill munur er á meðallaunum hjá körlunum og konunum þó svo að flest allir þátttakendur fái greitt fyrir að iðka knattspyrnu.

Hvað kom helst fram hjá viðmælendum/svarendum?   

Framkvæmd var rannsóknarkönnun sem var send á lið í Pepsi-deildinni sem hafa bæði karla og konur. Það voru eingöngu átta lið sem hafa bæði kyn í efstu deild á Íslandi. Það sem vakti athygli mína var að fáir þátttakendur þekktu jafnréttisstefnu KSÍ eða félagsins. Einnig hvað konurnar voru sammála um flest atriði sem spurt var um í könnuninni á meðan fjölbreyttari svör komu frá strákunum. Hins vegar var síðasta spurningin opin fyrir annað sem fólk vildi taka fram og þar komu margir áhugaverðir punktar. Þar má helst nefna frá konunum að mörgum finnst halla á þær varðandi rekstur og umgjörð í knattspyrnu.

Hvað kom mest á óvart í niðurstöðunum?

Það sem kom mest á óvart var hversu mikill munur er á launum kynjanna sem spila/æfa knattspyrnu á Íslandi. Karlar virðast fá hærri laun og einnig meiri hlunnindi þrátt fyrir að karla og konur spili sama leikinn miðað við reglugerð KSÍ. 

Margrét Sif Magnúsdóttir