Skip to main content
14. janúar 2015

Minningarsjóður Eggerts Þórs Bernharðssonar

Stofnaður hefur verið minningarsjóður um Eggert Þór Bernharðsson prófessor sem féll frá á gamlársdag 56 ára að aldri. Markmið sjóðsins er að efla kennslu í hagnýtri menningarmiðlun, námsleiðinni sem Eggert stofnaði á sínum tíma, stjórnaði ætíð og efldi.

Sjóðurinn er vistaður af Háskóla Íslands. Reikningsnúmerið er: 0137-26-20250, og kt. 600169-2039.

Eggert Þór fæddist í Reykjavík 2. júní 1958. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1978, BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1983 og cand. mag.-prófi í sömu grein frá Háskóla Íslands 1992.

Eggert Þór starfaði sem stundakennari í sagnfræði við Háskóla Íslands frá 1987 og hlaut fastráðningu 1993. Hann varð aðjunkt í sagnfræði árið 2001, lektor í hagnýtri menningarmiðlun 2006, dósent í lok sama árs og tók við prófessorsstarfi í sömu grein árið 2009 og gegndi því til dánardags.

Eggerti Þór voru falin fjölmörg trúnaðarstörf innan Háskóla Íslands og utan. Hann var formaður sagnfræði- og fornleifafræðiskorar 2007–2008, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar 2008–2012 og tók þátt í margvíslegum nefndarstörfum. Hann var formaður Sagnfræðingafélags Íslands 1983–1985.

Eggert Þór var afkastamikill fræðimaður og ritaði m.a. bækurnar Saga Reykjavíkur 1940–1990 í tveimur bindum (1998, tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna), Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940–1970 (2000, tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, ný og aukin útgáfa 2013) og Sveitin í sálinni. Búskapur í Reykjavík og myndun borgar (2014, tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna). Einnig ritaði hann sögu Leikfélags Reykjavíkur 1950–1997 (1997), sögu Trésmíðafélags Reykjavíkur 1947–1999 (1999) og ritið Alhliða háskóli. Rektorstíð Páls Skúlasonar í Háskóla Íslands 1997–2005 (2006). Auk þess birti Eggert Þór fjölda greina á sviði sagnfræði, setti upp sögusýningar, gerði útvarps- og sjónvarpsþætti og nýtti nýja miðla til lifandi framsetningar á sagnfræðilegu efni í máli og myndum.

Eggert Þór var frumkvöðull innan fræðigreinar sinnar og setti m.a. á fót námsleið á meistarastigi í hagnýtri menningarmiðlun. Sú grein hefur blómstrað undir hans stjórn. Hann var vinsæll og vandvirkur kennari og leiðbeinandi og sinnti nemendum sínum af alúð.