Skip to main content
11. maí 2016

Menningarsaga framúrstefnunnar á Norðurlöndum

""

Út er komið hjá forlaginu Brill ritið A Cultural History of the Avant-Garde in the Nordic Countries 1950-1975. Ritið kemur út í hinni virtu ritröð Avant-Garde Critical Studies og um er að ræða annað bindið af fjórum sem helguð eru menningarsögu framúrstefnunnar á Norðurlöndum. Aðalritstjórar verksins eru Tania Ørum og Jesper Olsson en auk þeirra sátu í ritnefnd Birgitte Anderberg, Andreas Engström, Audun Lindholm, Henrik Kaare Nielsen, Harri Veivo og Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Í bókinni, sem er fyrsta ritið sem helgað hefur verið framúrstefnuhræringum eftirstríðsáranna á Norðurlöndum, er fjallað um það hlutverk sem framsæknir straumar í bókmenntum og listum gegndu á tímabilinu og sjónum beint að menningarlegu, þjóðfélagslegu og hugmyndafræðilegu samhengi þeirra. Fjallað er jöfnum höndum um bókmenntir, myndlist, arkitektúr, hönnun, kvikmyndir, sviðslistir, útvarp, sjónvarp og aðra miðla og listgreinar. Alls hefur ritið að geyma rúmlega áttatíu greinar og fjalla átta þeirra um íslenskt efni. Höfundar þeirra greina eru Halldór Björn Runólfsson, Þröstur Helgason, Anna Jóhannsdóttir, Árni Heimir Ingólfsson, Danielle Kvaran, Magnús Þór Þorbergsson og Benedikt Hjartarson.

Nánari upplýsingar um verkið má nálgast á heimasíðu forlagsins Brill.

Kápa bókarinnar A Cultural History of the Avant-Garde in the Nordic Countries 1950-1975
Benedikt Hjartarson