Skip to main content
12. maí 2015

Meistaranemar til Búdapest

Viðskiptafræðideild stendur í samstarfi við tíu aðra háskóla í Evrópu fyrir námskeiði fyrir meistaranemendur sem fer fram í Búdapest í Ungverjalandi á næstu dögum. Námskeiðið nýtur stuðning Erasmus + og hefur deildin áður komið að slíku námskeiði sem haldin hafa verið víða um heim og heppnast einstaklega vel.

Auður Hermannsdóttir, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild, stendur fyrir námskeiðinu ásamt Kára Kristinssyni, lektor við Viðskiptafræðideild, og átta aðilum úr háskólum í Evrópu.

„Nemendurnir sem hafa tekið þátt í þessum alþjóðlegu námskeiðum undanfarin ár hafa lært gríðarlega mikið á því að starfa með bæði nemendum og kennurum með ólíkan bakgrunn og frá ólíkum menningarheimum. Auk þess hafa þau myndað góð vinatengsl við nemendur víða um Evrópu sem sumir hafa nýtt sér síðar meir. Eitt það verðmætasta sem hefur komið úr úr þessu eru sterk vináttutengsl milli nemendanna sem taka þátt í þessu ævintýri og þessari upplifun sem þátttaka í þessum námskeiðum er“, sagði Auður Hermannsdóttir.

Námskeiðið sem haldið verður á næstu dögum heitir „Marketing Communication Innovativeness of European Entrepreneurs“ sem útleggst á íslensku „Evrópskir frumkvöðlar og nýsköpun í markaðssamskiptum“.

Frumkvöðlar eru afar mikilvægir efnahagslegri framþróun í evrópska efnahagskerfinu. Þeir hafa tækifæri til þess að skapa sér sérstöðu og aðgreina sig frá keppinautum sem fyrir eru á markaði með því að byggja markaðssamskipti á samræðu við viðskiptavini. Nýjar aðferðir fela m.a. í sér að nýta sér þá fjölbreyttu samfélagsmiðla sem aðgengilegir eru á netinu og gefa frumkvöðlum einstakt færi á samskiptum við hugsanlega viðskiptavini án tillits til fjármagns og menningarlegra hindrana.

Sjá nánar um námskeiðið á þessum hlekk MARCIEE  

Hópurinn sem stendur að námskeiðinu
Hópurinn sem stendur að námskeiðinu