Skip to main content
6. september 2016

Martha hlaut heiðursverðlaun lífeindafræðinga

""

Martha Ásdís Hjálmarsdóttir, lektor við Læknadeild og stjórnandi námsbrautar í lífeindafræði, hlaut heiðursverðlaun á ráðstefnu alþjóðasamtaka í lífeindafræði, IFBLS (e. The International Federation of Biomedical Sciences) sem fram fór í Kobe í Japan dagana 31. ágúst til 4. september sl. 

Heiðursverðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi framlag til fags lífeindafræðinga á alþjóðavettvangi. Fyrrverandi forsetar samtakanna velja verðlaunahafa ýmist úr hópi lífeindafræðinga eða annarra sem hafa lagt hönd á plóginn og nefnast þau á ensku Past President Award.

Martha Ásdís Hjálmarsdóttir er sem fyrr segir lektor og stjórnandi námsbrautar í lífeindafræði við Læknadeild Háskóla Íslands. Hún gengdi stöðu forseta IFBLS á árunum 2000–2002 og stöðu varaforseta á árunum 1998–2000. Martha sat einnig í framkvæmdastjórn samtakanna um árabil og átti m.a. sæti í vísindanefnd og menntunarnefnd samtakanna og var tengiliður þeirra við Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO), en samtökin eiga aðild að henni. Rannsóknir Mörthu snúa einna helst að faraldsfræði pneumókokka með minnkað næmi fyrir pensilíni og að virkni  fjölsykrunnar kítósans og afleiða þess á bakteríur.

Martha Ásdís Hjálmarsdóttir
Martha Ásdís Hjálmarsdóttir