Skip to main content
26. maí 2016

Málþing um rekstrarfyrirkomulag heilbrigðiskerfisins

Félagsfræðingafélag Íslands og Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands stóðu fyrir málþingi þriðjudaginn 24. maí um rekstrarfyrirkomulag heilbrigðiskerfisins.

Rúnar Vilhjálmsson prófessor flutti erindið: „Félagslegt heilbrigðiskerfi á Íslandi: Goðsögn eða veruleiki?“ Rúnar lagði upp með að félagsleg heilbrigðiskerfi byggi á grunngildum um samábyrgð, sanngirni og gæði þjónustu. Hér á landi er yfirgnæfandi og vaxandi stuðningur við félagslegt heilbrigðiskerfi, bæði hvað varðar rekstur og fjármögnun.  Þrátt fyrir þennan vaxandi stuðning hefur heilbrigðiskerfið færst frá „kjörmynd hins félagslega heilbrigðiskerfis á undanförnum árum með einkavæðingu innan kerfisins, bæði í formi einkafjármögnunar og einkareksturs“. Í lok erindisins setti Rúnar fram athugasemdir við bæði gamlar og nýjar en algengar goðsagnir um heilbrigðisþjónustuna.  

Næst var Sigrún Ólafsdóttir prófessor með erindið „Viljum við jöfnuð? Viðhorf Íslendinga til heilbrigðismála í alþjóðlegum samanburði“.  Sigrún fjallaði m.a. um tengsl heilbrigðis- og velferðarkerfisins og hvernig ólík kerfi hafa áhrif á viðhorf almennings, bæði almennt og á milli hópa. Margar ástæður eru fyrir hópamun en oft er talað um að skoðanir mótist annars vegar af hagsmunum og hins vegar hugmyndafræði. Niðurstöðurnar sýna að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er fylgjandi jöfnuði í heilbrigðiskerfinu og að ríkisvaldið sé ábyrgt fyrir heilbrigðisþjónustu. Íslendingar virðast fremur mynda sér skoðanir á heilbrigðiskerfinu eftir hugmyndafræði en hagsmunum. Í alþjóðlegum samanburði þá er greinilegt að Íslendingar vilja jöfnuð og ábyrgð ríkisins, til að mynda er hærra hlutfall Íslendinga sem tekur slíka afstöðu en annars staðar á Norðurlöndunum.

Kjartan Sveinsson, nýdoktor við Félags- og mannvísindadeild, skoðaði nokkur grundvallaratriði sem skipta máli við brottflutning lækna og áhrif þess á heilbrigðiskerfið. Aukinn læknisfræðilegur atgervisflótti (e. medical brain drain)  varð í senn afleiðing kreppunnar og um leið mælistika á vandann og hversu vel tækist að ná bata eftir kreppuna. Íslenskir læknar hafa að geyma mikinn mannauð sem hefur orðið til á mestu þekkingarsvæðum læknavísindanna. Þar sem íslenskir læknar hafa greiðan aðgang að störfum í nágrannalöndum er mikilvægt að velta fyrir sér af hverju þeir ættu yfir höfuð að vilja vinna í kerfi sem er afar smátt miðað við það kerfi sem þeir hafa vanist í sérhæfinámi. Mikilvægt er að hafa í huga það það eru ekki aðeins laun heldur og félaglegir þættir sem hafa áhrif á það hvort læknir ákveður að búa og starfa á Íslandi. Starfsumhverfi, ánægja í starfi, möguleikar á þróun í starfi og gott fjölskyldulíf er meðal þessara þátta.

Í síðasta erindinu fjallaði Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir dósent m.a. um það hvers vegna  einkavæðing eykst innan kerfisins þegar meirihluti landsmanna vill að heilbrigðiskerfið sé fjármagnað úr opinberum sjóðum. Sigurbjörg minntist m.a. á að framfarir í læknavísindum hafa leitt til aukinnar einkavæðingar. Einkavæðing þjónustunnar hefur leitt til einkavæðingar á fjármögnun og þegar lækna fjárfesta í heilbrigðiskerfinu verða til viðskiptahagsmunir lækna innan kerfisins sem breyta eiginleikum og eðli heilbrigðiskerfisins. Hættur í einkarekstri í heilbrigðiskerfinu eru t.d. oflækningar, svokallaðar rjómafleytingar og framboðsdrifin eftirspurn ef ekki er beitt viðeigandi stjórntækjum til að draga úr þeim hættum. Einnig verður þjónustan dreifð og brotakennd þar sem skortur er á kerfislægri heildarsýn á þjónustuna. 

Fundarstjóri var Guðbjörg Linda Rafnsdóttir sem stjórnaði meðal annar pallborðsumræðum þar sem þátt tóku, auk frummælenda, Birgir Jakobsson landlæknir og Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir.

Sjá myndir á flickr

Upptaka frá málþinginu hér

 

Frá málþingi um rekstrarfyrirkomulag heilbrigðiskerfisins.
Frá málþingi um rekstrarfyrirkomulag heilbrigðiskerfisins.