Skip to main content
24. júní 2015

Málþing til heiðurs Haraldi Briem

Embætti landlæknis, Landspítali - háskólasjúkrahús og Háskóli Íslands efndu til málþings í Hringsal Landspítalans þann 22. júní síðastliðinn í tilefni af starfslokum Haraldar Briem, sóttvarnarlæknis og dósents við Læknadeild Háskóla Íslands en hann lætur af störfum í haust sökum aldurs.

Nokkrir samstarfsmenn Haraldar fluttu erindi á málþinginu og má þar nefna Þórólf Guðnason, yfirlækni á sóttvarnasviði Landspítala, Sigurð Guðmundsson, prófessor við Læknadeild og fyrrum landlæknir, Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir og prófessor við Læknadeild, og Unni Önnu Valdimarsdóttur, prófessor við Læknadeild og forstöðumann Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum. Richard Wenzel, smitsjúkdómalæknir og einn af aðalritstjórum læknatímaritsins New England Journal of Medicine, flutti lokaerindi málþingsins en Richard er heimsþekktur baráttumaður gegn spítalasýkingum. Þá færði fulltrúi frá samtökunum HIV-Ísland Haraldi blóm og þakkaði honum stuðning við samtökin.

Birgir Jakobsson landlæknir var fundarstjóri.

Hér má nálgast dagskrá málþingsins.

Mikil framþróun við meðferð alnæmis stendur upp úr

Haraldur á að baki farsælan starfsferil en hann hefur gegnt stöðu sóttvarnarlæknis hjá Embætti landlæknis síðan 1997. Framþróun við meðferð alnæmis, þ.e. lyf sem halda sjúkdómseinkennum alnæmis í skefjum, er líklega það merkilegasta sem hann hefur upplifað á viðburðarríkri starfsævi.

Haraldur hefur ekki síður gegnt mikilvægum störfum innan Háskóla Íslands. Hann hóf störf við Læknadeild árið 2001. Fjórum árum síðar var hann fenginn til að leiða starfshóp um þróun náms í lýðheilsufræðum. Frá árinu 2007 hefur hann verið formaður stjórnar um þverfræðilegt nám í lýðheilsuvísindum við skólann.

Hlaut hin virtu norrænu lýðheilsuverðlaun

Árið 2012 hlaut Haraldur norrænu lýðheilsuverðlaunin fyrir mikilvægar rannsóknir á útbreiðslu smitsjúkdóma, baráttu gegn ónæmi fyrir sýklalyfjum og fyrir aðkomu sína að uppbyggingu meistaranáms í lýðheilsufræðum við Háskóla Íslands. Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, samtökum eða stofnunum sem hafa lagt mikið af mörkum til að bæta lýðheilsu á Norðurlöndum.

Haraldur lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1972 og fékk síðar sérfræðiréttindi í bráðum smitsjúkdómum og í smitsjúkdómum innan lyflæknisfræði. Hann lauk doktorsprófi í læknavísindum frá Karolinska-háskólasjúkrahúsinu árið 1982.

Forseti og starfsmenn Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands þakka Haraldi vel unnin störf í þágu skólans og óska honum velfarnaðar.

Á vef Embætti landlæknis má sjá myndir frá málþinginu.

Málþing í tilefni af starfslokum Haraldar Briem, sóttvarnarlæknis og dósents við Læknadeild Háskóla Íslands fór fram á Landspítalanum þann 22. júní síðastliðinn og tókst einkar vel.
Málþing í tilefni af starfslokum Haraldar Briem, sóttvarnarlæknis og dósents við Læknadeild Háskóla Íslands fór fram á Landspítalanum þann 22. júní síðastliðinn og tókst einkar vel.