Skip to main content
3. maí 2017

Lögun jökla hefur áhrif á bráðnun þeirra

""

Alþjóðlegur hópur vísindamanna hefur þróað aðferð til að greina hvaða jöklar á Vestur-Grænlandi eru líklegastir til að þynnast á næstu áratugum með því að kortleggja lögun jöklanna. Sagt er frá rannsókn hópsins í tímaritinu Nature Geoscience sem kom út nýverið, en meðal aðstandenda hennar er Niels Jákup Korsgaard, nýdoktor við Jarðvísindastofnun Háskólans. Með framlagi sínu vonast vísindamennirnir jafnframt til að hægt verði að spá betur fyrir um hversu mikil áhrif bráðnun Grænlandsjökuls muni hafa á hækkun sjávarborðs.

Grænlandsjökull er næststærsta jökulbreiða jarðar og hefur á undanförnum áratugum tapað töluverðum massa en vísindamenn rekja orsakir þess til hlýnunar loftslags á jörðinni. Misjafnt er eftir svæðum hversu mikinn massa einstaka jöklar á Grænlandi hafa tapað og það gerir alla útreikninga á hugsanlegum áhrifum bráðnunar jöklanna á hækkun sjávarborðs afar erfiða.

Markmið rannsóknarinnar, sem sagt er frá í Nature Geoscience, var að takast á við þetta vandamál og þróa aðferð til að meta hvað veldur mishraðri bráðnun jökla á tilteknum svæðum. Við rannsóknina studdist hópurinn m.a. við kort af bergrunni Grænlands og gervihnattagögn frá Bandarísku geimferðastofnuninni, NASA. Út frá þessum og fleiri gögnum reiknuðu vísindamennirnir út hversu langt inn í land þynning jöklanna, sem hefst við jökulsporða þeirra sem standa út í hafið, væri líkleg til  að ná. 

Fjórir jöklar sérstaklega viðkvæmir

Niðurstöðurnar sýna að því lengra sem þynningin næði inn í land, því viðkvæmari væru jöklarnir fyrir massatapi. Jafnframt höfðu fleiri þættir áhrif á þynninguna, eins og þykkt jökulsins og halli yfirborðs hans en hann ræðst m.a. af landslaginu undir jöklinum. Þannig er líklegra að jökull þynnist hraðar á stærra svæði ef hann er þykkur og liggur á flötu landslagi en hægar ef jökullinn er þunnur og landslagið undir honum bratt.

Alls skoðaði hópurinn 16 jökla á Vestur-Grænlandi með þessari nýju aðferð sem hann þróaði. Í ljós kom að flestir jöklanna eru viðkvæmir fyrir þynningu á svæði sem nær á bilinu 15-50 kílómetra inn í land. Enn fremur reyndust fjórir af jöklunum sérstaklega viðkvæmir fyrir bráðnun samkvæmt útreikningunum: Rink-jökullinn, Umiamako-jökullinn, Jakobshavn-jökullinn og Sermeq Silardleq. Rekja má 81 prósent af massatapi jöklanna á Vestur-Grænlandi á síðustu þremur áratugum, til bráðnunar Jakobshavn-jökulsins en hann er viðkvæmur fyrir þynningu um 240 kílómetra inn í land samkvæmt niðurstöðum þeirra. Það er um þriðjungur af heildarvegalengd yfir Grænlandsjökul á þessu svæði. Ástæðan fyrir þessu, að sögn vísindamannanna, er sú að Jakobshavn-jökullinn liggur í afar djúpri lág sem nær langt inn í land, svipaðri og djúpu firðirnir eru á vesturströnd Noregs, en það þýðir að ísinn er bæði þykkur og yfirborðið undir honum flatt.

Umiamako og Sermeq Silardleq jöklarnir hafa einnig tapað töluverðum massa á síðustu áratugum og greining vísindamannanna á lögun Rink-jökulsins sýnir að hann gæti farið að þynnast ef jökulsporður hans, sem nær út í sjó, verður óstöðugur. Miklar líkur eru taldar á því samfara hlýnandi loftslagi.

Vísindamennirnir segja að með því að beita þessari aðferð sé hægt að greina hvaða svæði á Grænlandsjökli séu viðkvæm fyrir bráðnun og hafi þannig meiri áhrif á hækkun sjávarborðs en önnur. Aðferðin segir þó ekki til um hversu mikill massi tapast á umræddum svæðum. Rannsóknarhópurinn mun halda áfram að beita þessari nýju tækni til greiningar á þynningu annarra jökla, m.a. annars staðar á Grænlandi og á Suðurskautslandinu.

Að rannsókninni kemur hópur vísindamanna við háskóla í Bandaríkjunum, Danmörku og Hollandi auk Jarðvísindastofnunar Háskólans en rannsóknin naut m.a. stuðnings frá NASA.

Niels Jákup Korsgaard, nýdoktor við Jarðvísindastofnun Háskólans
Jökulsporður Kangerlugssuup Sermerssua jökulsins á vesturhluta Grænlands