Skip to main content
22. september 2015

Lögfræðiaðstoð Orators hefur starfsemi að nýju

Laganemar við Háskóla Íslands verða  við símann á fimmtudagskvöldum í vetur og veita hverjum sem vill endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð. Að sögn annars af framkvæmdastjórum lögfræðiaðstoðarinnar berast fyrirspurnir um afar fjölbreytileg álitaefni.

Löng hefð er fyrir því hjá laganemum í Orator að nýta þekkingu sína á þennan hátt í þágu samfélagsins. Heimildir eru um að laganemar hafi boðið lögfræðiaðstoð í einhverju formi á árunum 1933 til 1935 en hún hefur verið starfrækt í núverandi formi í á fjórða áratug, eða frá árinu 1981. „Hún var upphaflega starfrækt í nánu samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið og í dag fer aðstoðin fram í gegnum síma. Laganemar hafa einnig aðstoðað einstaklinga við gerð skattframtala undanfarin ár á sérstökum skattadegi í mars ár hvert. Skattadagurinn er haldinn í samstarfi við Deloitte og undir handleiðslu sérfræðinga frá þeim,“ segir Linda Ramdani, laganemi sem gegnir starfi framkvæmdastjóra Lögfræðiaðstoðar Orators í ár ásamt Ingu Valgerði Stefánsdóttur.

Lögfræðiaðstoðin hefur starfsemi eftir sumarhlé á fimmtudaginn kemur, þann 24. september, og verður hún í boði í endurgjaldslaust og undir nafnleynd í síma 551-1012 á fimmtudagskvöldum kl. 19:30-22:00 í allan vetur. Þó verður gert hlé á starfseminni yfir prófatíma. „Við símann sitja meistaranemar við Lagadeild en grunnnemar hafa fengið að taka þátt til þess að læra inn á starfsemina. Að þjónustunni koma starfandi lögmenn sem gefa nemendum leiðbeiningar um svör. Margir þeirra hafa aðstoðað í sjálfaboðastarfi um árabil og hafa áratugareynslu af lögmannsstörfum. Þeir leiðbeina nemendum við að svara fyrirspurnum og hjálpa þeim að komast að réttri niðurstöðu,“ segir Linda enn fremur. 

Lögfræðiaðstoð Orators hefur fengið Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins og ljóst er að þörf er á þjónustu sem þessari því í fyrra bárust alls 150 fyrirspurnir í gegnum síma og rúmlega 50 manns fengu aðstoð við framtalsskil á skattadeginum. „Fyrirspurnir varða fjölmörg réttarsvið en dæmi um mál sem oft er spurt um varða sifjamál, erfðamál, leigu- og fasteignarétt og bótarétt. En okkur hafa borist fyrirspurnir um allt frá neytendalánum upp í tvísköttunarsamninga,“ segir Linda.

Lögfræðiaðstoðin kemur ekki síður laganemum en skjólstæðingum þeirra til góða þegar til framtíðar er litið.  „Þeir laganemar sem taka þátt í lögfræðiaðstoðinni öðlast reynslu af því að svara raunverulegum lögfræðilegum álitaefnum. Það reynir á mjög fjölbreytt álitaefni í starfseminni og því þjálfast nemendur á mörgum sviðum. Einnig þjálfast nemendur í að lýsa lögfræðilegum viðfangsefnum á skýran hátt og að eiga samskipti við einstaklinga sem eru að leita aðstoðar,“ segir Linda að lokum. 

Nemendur við Lagadeild Háskóla Íslands
Nemendur við Lagadeild Háskóla Íslands