Skip to main content
26. febrúar 2015

Líf og list í Öskju og Aðalbyggingu á Háskóladeginum

Innlendir og erlendir tónar og dansar, ókeypis ferðir um himiningeiminn, töff tilraunastofur og þýðingarsamkeppnin Þýddu betur er aðeins brot af þeim ótal viðburðum og kynningum sem Hugvísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands bjóða upp á í Aðalbyggingu  og Öskju á Háskóladaginn. Deginum verður fagnað laugardaginn 28. febrúar milli kl. 12 og 16 og allir landsmenn velkomnir.

Námskynningar í nafntoguðum byggingum

Verkfræði- og náttúruvísindasviði er skipt í sex deildir; Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Jarðvísindadeild, Líf- og umhverfisvísindadeild, Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, Raunvísindadeild og Umhverfis- og byggingarverkfræðideild og munu bæði nemendur og kennarar úr öllum deildum svara spurningum gesta um hvort tveggja nám og rannsóknir í  Öskju á laugardag. Þar verður jafnframt kynning á tæknifræðinámi í Keili.

Að sama skapi verða fulltrúar Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, Íslensku- og menningardeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar, sem saman mynda Hugvísindasvið, með kynningu á námi deildanna í Hátíðasal og kennslustofum á 2. hæð Aðalbyggingar.

Námsleiðir þessara tveggja sviða eru meðal hátt í 400 námsleiða við Háskóla Íslands sem kynntar verða á Háskóladaginn. Auk kynningar Hugvísindasviðs í Aðalbyggingu og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í Öskju verða fulltrúar frá Félagsvísindasviði, Heilbrigðisvísindasviði og Menntavísindasviði með kynningu á sinni starfsemi og námsleiðum á annarri hæð Háskólatorgs.

Ferðir um himingeiminn og funheitt Holuhraun

Í Öskju verður ótal margt í boð annað en kynningar á námi. Þannig verða sýningar í stjörnutjaldinu á tuttugu mínútna fresti frá kl. 12.20 en þar er boðið upp á ókeypis ferðir til tunglsins og reikistjarnanna í stórskemmtilegri sýningu. Enn fremur gefst gestum kostur á að heimsækja tilraunastofur vísindamanna í náttúrufræðahúsinu þar sem ýmislegt forvitnilegt úr náttúrunni ber fyrir augu. Eldfjallafræðingar glóðarsteikja pylsur í Öskju og bjóða jafnframt fólki að handfjatla funheitt Holuhraun með gosi. Fulltrúar Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar verða með jarðskjálftaborð, nemendur og kennarar Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar sýna gestum ýmis tól og tæki og þá munu lið úr Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema, sem fram fór á dögunum, sýna brautina og farartæki sem notuð voru í keppninni. Enn fremur leiða félagar úr Sprengjugenginu gestum fyrir sjónir undur efnafræðinnar og verkfræðinemar í liðinu Team Spark sýna rafknúna kappakstursbílinn TS14 sem keppti á Silverstone-kappakstursbrautinni í fyrrasumar en þar fékk liðið verðlaun sem bestu nýliðarnir í sínum flokki.

Þýddu betur og ómur söngva í Aðalbyggingu

Fulltrúar Hugvísindasviðs brydda upp á ýmsu á í Aðalbyggingu á Háskóladaginn. Þannig verða fulltrúar þýðingarfræðinnar með samkeppnina Þýddu betur sem ætluð er gestum og gangandi og þá munu ritlistarnemar standa fyrir nokkurs konar samyrkju þar sem gestir leggja til eina línu hver í ljóð sem lengjast mun eftir því sem líður á daginn. Tónlist og dans skipa einnig stóran sess í dagskránni í Aðalbyggingu enda er hljómurinn í undir silfurbergshvelfingunni í anddyri byggingarinnar einstakur. Meðal þeirra sem troða þar upp eru Háskólakórinn, Húsbandið og Dægurlagadúettar auk þess sem japanskur söngur mun óma um bygginguna. Enn fremur verður stiginn japanskur nútímadans og salsadans á flísum Aðalbyggingar og leikið verður á kínverska hörpu.

Sprengjur, dans og lifandi vísindi í Háskólabíói
Það verður einnig nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna í Háskólabíói en þar munu félagar úr Sprengjugengi Háskóla Íslands, sem er fyrir löngu orðið landsþekkt, verða með kraftmiklar og litríkar sýningar í sal 1. Sýningarnar verða kl. 13.00 og 14.30 og er gott að koma tímanlega til að tryggja sér sæti. 
Háskóladansinn mun enn fremur sýna listir sínar og boðið verður upp á Vísindabíó í salnum á undan og eftir sýningum Háskóladansins og Sprengjugengisins.Þá verður ógleymanlegt japanskt shamisen-tónlistaratriði í bíóinu.

Auk þess verður Vísindasmiðjan sívinsæla opin frá 12-16 í Háskólabíói. Þar getur öll fjölskyldan kynnt sér undur vísindanna með lifandi hætti enda er þar fléttað saman leik og ljóma vísindanna.  

Háskóli Íslands verður hins vegar ekki einn með kynningu á háskólasvæðinu því Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri kynna nám sitt á 1. hæð Háskólatorgsins og Listaháskóli Íslands verður þar einnig ásamt Keili með sína landsþekktu háskólabrú.

Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst verða með námskynningar í húsakynnum Háskólans í Reykjavík við Öskjuhlíð og Listaháskóli Íslands kynnir allar sínar námsleiðir í sínum húsakynnum á Laugarnesvegi.

Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli skóla.

Ókeypis er á alla viðburði í Háskóla Íslands á Háskóladaginn en nánari dagskrá í byggingum skólans má sjá hér að neðan.

Frá Háskóladeginum í Aðalbyggingu.