Skip to main content
7. nóvember 2016

Lið Lagadeildar HÍ sigrar í EES-málflutningskeppninni

Laganemar við Lagadeild Háskóla Íslands stóðu uppi sem sigurvegarar í EES-málflutningskeppninni sem haldin var dagana 5.-6. nóvember í Hæstarétti, en keppnin fór fram á ensku. Sigurliðið skipa Andrés Fjeldsted, Stefán Kristinsson, Arnar Vilhjálmur Arnarsson, Hildur Hjörvar og Jana Horáková, en þau kepptu við lið frá Háskólanum í Reykjavík í úrslitaviðureigninni. Hildur Hjörvar var enn fremur valin ræðumaður keppninnar. 

Lagadeild HÍ sendi tvö lið til keppninnar og stóð hitt liðið sig einnig afar vel. Það vakti athygli dómara fyrir óvenju miklar framfarir á meðan keppninni stóð og fékk sérstaka viðurkenningu fyrir það. Það lið skipuðu laganemarnir Áslaug Björk Ingólfsdóttir, Jonas Hiller, Jórunn Pála Jónasdóttir, Linn Munthe og Marlies Van de Poel.
 

Umsjónarmaður með keppninni fyrir hönd deildarinnar var Ása Ólafsdóttir, dósent og þjálfari liðanna var Sigrún Ingibjörg Gísladóttir hdl.

Þetta er í fyrsta skipti sem EES-málflutningskeppnin er haldin hér á landi að tilstuðlan eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) en keppnin felst í málflutningi  raunhæfs  EES-dómsmáls. 

Öllum lagadeildum á landinu gafst kostur á að vera með og alls tóku um 30 laganemar í sjö liðum þátt í keppninni. Liðin komu frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri. Háskólinn á Bifröst sendi ekki lið í keppnina en er samstarfsaðili í verkefninu. 

Keppnin fór mjög vel fram, og var sérlega skemmtilegt að fylgjast samvinnu liðanna, sem öll voru skipuð bæði íslenskum laganemum og erlendum skiptinemum.

Verðlaun í keppninni eru ferð til Brussel og Lúxemborgar þar sem starfsemi stofnana EFTA og Evrópusambandsins verður kynnt. Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður hjá ESA, afhenti viðurkenningu að keppni lokinni.

Sigurlið Lagadeildar Háskóla Íslands ásamt Helgu Jónsdóttur, stjórnmanni frá ESA.
Liðin tvö frá Lagadeild
Hressir laganemar eftir daginn
Hildur Hjörvar, ræðumaður keppninnar, ásamt Helgu Jónsdóttur frá EES.
Sigurlið Lagadeildar Háskóla Íslands ásamt Helgu Jónsdóttur, stjórnmanni frá ESA.
Liðin tvö frá Lagadeild
Hressir laganemar eftir daginn
Hildur Hjörvar, ræðumaður keppninnar, ásamt Helgu Jónsdóttur frá EES.